Innlent

Læknir í verkfalli: „Við getum ekki bara gengið út“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Hjörleifur vakti athygli á stöðunni á Facebook-síðu sinni en tveggja sólarhringa verkfall lækna hófst aðfaranótt mánudags.
Hjörleifur vakti athygli á stöðunni á Facebook-síðu sinni en tveggja sólarhringa verkfall lækna hófst aðfaranótt mánudags. Vísir / Getty
„Þetta er ekki framboð og eftirspurn. Maður er ekki að fást um eitthvað sem fólk er að biðja um, það er enginn sem biður um að koma á sjúkrahús,“ segir læknirinn Hjörleifur Skorri Þormóðsson. Verkfall lækna hófst á miðnætti á mánudag eftir að kjaraviðræður þeirra við ríkið sigldu í strand. „Við erum ekki að framleiða vöru, við erum að veita þjónustu.“

Hjörleifur segir það ekki einfalt að ganga bara út þegar verkfallið hefst. „Við getum ekki bara gengið út. Núna í dag hef ég til að mynda verið á bakvakt og þar sem ég reyni að „díla“ við sem minnst en ég „díla“ náttúrulega alltaf við eitthvað, sumt er bara þannig,“ segir hann. Læknar halda áfram að sinna bráðaverkefnum sem koma upp í verkfallinu en sú þjónusta sem getur beðið er látin bíða.

Verkfallið sem hófst aðfaranótt mánudags stendur í tvo sólarhringa og líkur því á miðnætti í nótt. Enn sér þó ekki fyrir endann á kjaradeilunni. Náist ekki að semja mun næsta verkfall hefjast miðnætti aðfaranótt mánudagsins 17. nóvember og standa til miðnættis daginn eftir.

Hjörleifur vakti athygli á þessari óþægilegu stöðu sem læknar eru í á Facebook-síðu sinni í dag. „Maður sór eið, maður skaðar ekki, en ferlið sem maður er í mun skaða,“ skrifaði hann. „En ég hef séð hvert heilbrigðiskerfi fara án kjarabaráttu, og það er illa bjóðandi siðlegu fólki, skaðar mjög. Þannig að maður stendur við og reynir að neita, kveða niður vænisýki og samvisku.“

Í samtali við Vísi segir hann fleiri lækna eiga í vandræðum með að finna línuna um hvað eigi að láta kyrrt liggja og hverju eigi að sinna. „Allir sem maður talar við af kollegunum eru í vandræðum með þetta,“ segir hann.


Tengdar fréttir

Á miðnætti skellur verkfall lækna á

Á þriðja hundrað læknar leggja niður störf á miðnætti í kvöld. Verkfallið skapar mikla óvissu á Landspítalanum en það nær einnig til lækna á heilbrigðisstofnunum um allt land.

Verkfall lækna skollið á

Heilsugæslulæknar og læknar á kvenna-, barna- og rannsóknarsviði Landspítalans hófu tveggja sólarhringa verkfall á miðnætti. Læknar munu einungis sinna bráðaþjónustu. Verkfallið hefur áhrif á þúsundir sjúklinga.

Læknaverkfall hófst á miðnætti

Verkfallsaðgerðir lækna í Læknafélagi Íslands hófust á miðnætti og í þessari atrennu ná þær til umþaðbil 300 lækna á heilsugæslustöðvum og á kvenna- barna og rannsóknasviði Landsspítalans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×