Lífið

Steindi um nýja þáttinn: „Nútímalegt grín fyrir ADHD kynslóðina"

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
„Þetta er að verða að veruleika, tilfinningin er frábær,“ segir grínistinn Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr, um þættina Hreinn skjöldur, sem verður sýndur á Stöð 2 í nóvember. Steindi leikur aðalhlutverkið í þáttunum, ásamt þeim Pétri Jóhanni Sigfússyni og Sögu Garðarsdóttur.

Að sögn Steinda verða þættirnir nokkuð ólíkir þáttunum Steindinn okkar, þó haldið sé í einhverjar hefðir. „Ef maður ætti að líkja þáttunum við einhverja aðra þáttaröð þá myndi ég segja að þetta væri svolítið eins og þættirnir um Simpsons fjölskylduna. Í þáttunum verða sömu karakterarnir, leiknir af sömu leikurunum, en hver þáttur er sjálfstæður. Með öðrum orðum byrja allir með hreinan skjöld í hverjum þætti,“ útskýrir hann og bætir við:

„Þetta verður nútímalegt grín fyrir ADHD kynslóðina.“

Tökur á þáttunum hefjast nú í næstu viku. „Það er allt tilbúið. Krúið er frábært, geðveikur andi. Það er búið að stilla alla strengi, fyrir utan eitt,“ segir Steindi heldur áfarm:

„Nú erum við að byrja að leita að aukaleikurum og hvetjum þá til að hafa samband við okkur í gegnum netfangið hreinnskjoldur@gmail.com.“

Saga Garðars og Pétur Jóhann

Aðalpersónur þáttanna heita Hreinn Skjöldur, leikinn af Steinda; Gunnar, leikinn af Pétri Jóhanni og Harpa, leikin af Sögu Garðars. Steindi lýsir persónunum svo:

„Hreinn Skjöldur, eða Skjöldur eins og hann kallaður í daglegu tali, þjáist af hinum algenga kvilla að þurfa að láta öllum líka vel við sig. Hann er meðvirkur eins og íslenska þjóðin og reynir að þóknast öðrum eftir fremsta megni. Þetta verður til þess að hann hellir sér rakleiðis í hver þau furðulegu ævintýri sem hann kemst í, oftar en ekki til þess að ganga í augun á einhverjum sem hann er nýbúinn að kynnast.

Gunni er hinsvegar hugsjónamaður. Hann lítur á sjálfan sig menningarsinna og pólitískt rétt þenkjandi róttækling. Þessi munur á þeim félögum verður til þess að þeim lendir reglulega saman. Þeir lenda á öndverðum meiði og sem andstæðingar, báðir blindir á það hversu líkir þeir eru í raun og veru.

Harpa er sú eina af þríeykinu með raunverulegan viljastyrk. Hún er blátt áfram og tvínónar ekki við hlutina. En eins og strákarnir hefur hún ekki fundið sinn stað í lífinu og flakkar úr einu í annað.“

Tröll í Kópavogi spaugilegri en í Narníu

Steindi segir að þó að þættirnir verði ekki eins og Steindinn okkar munu handritshöfundar samt halda í ákveðnar hefðir. „Það má eiginlega hugsa hvern þátt sem stóran skets. Við munum líka fá stjörnuleikara í hvert hlutverk, þetta verður allt virkilega vel mannað.“

Steindi segir að sögusvið þáttanna verði Reykjavík. Hann vitnar í Ágúst Bent, handritshöfund og leikstjóra:

„Þættirnir gerast á ótilgreindum stað í Reykjavík, við strendur Íslands og úti á landi, og er raunverulegum stöðum blandað frjálslega við uppspunna. Enda er er tröll í Kópavogi alltaf spaugilegra en tröll í Narníu.“

Steindi segir að Hreinn Skjöldur og félagar munu taka upp á hinum ýmsu hlutum. „Hann tekur til dæmis þátt í neðanjarðar kappátskeppni, gengur í AA samtökin, fer dulbúinn inn í Hagaskóla og svo taka vinirnir yfir Herjólf á leiðinni heim frá Þjóðhátíð.“

Þættirnir verða alls sjö talsins og munu vera á dagskrá Stöðvar 2 í lok nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×