Innlent

Kallar eftir yfirvegaðri umræðu

Samúel Karl Ólason skrifar
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB. Vísir/Valgarður
„Dapurlegt er að fylgjast með umræðu fulltrúa meirihluta fjárlaganefndar í kjölfar birtingar árshlutauppgjörs Fjársýslu ríkisins um fjárreiður ríkissjóðs,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.

Hún segir að áður en skýringa á meintum framúrkeyrslum tiltekinna stofnana hafi verið leitað hjá viðkomandi ráðuneytum, sé talið farið að berast að mögulegum breytingum á starfsmannalögum. Svo auðveldara verði að víkja fólki úr starfi til að refsa þeim.

„Einn þingmaður meirihlutans á þingi gekk svo langt að leggja til að forstöðumenn stofnana finni sér nýtt starf.“

Umræðan mátt vera yfirvegaðri

Í tilkynningu á vef BSRB segir hún að umræðan hefði mátt vera yfirvegaðri enda hafi ekki verið nærri eins mikil ástæða til upphlaups þegar málið var skoðað betur.

„Þegar fjárlaganefnd hafði svo fyrir því að spyrjast frekar fyrir um meintar framúrkeyrslur fjárheimilda hafa í flestum tilfellum fengist eðlilegar skýringar á því hvers vegna tölurnar birtast með þeim hætti sem þær gera í þessu árshlutauppgjöri.“

Í kjölfarið hefur formaður fjárlaganefndar sagt að staðan sé því víða ekki eins slæ og árshlutauppgjörið segi til um.

„Það hefur samt ekki dregið úr þeim ofsa sem einkennt hefur umræður formannsins um störf opinberra starfsmanna og vilja hennar til að minnka starfsöryggi þeirra. Í málflutningi sínum hefur formaður fjárlaganefndar ítrekað gerst sek um alls kyns rangfærslur sem eiga ekki við nein rök að styðjast.“

Þar bendir Elín á áminningarferli ríkisstarfsmanna auk þess að því hafi verið haldið fram að ríkisstarfsmenn séu æviráðnir ogo því sé ómögulegt að reka þá úr starfi.

Opinbert starfsfólk betra skilið

„Aðgerðir ríkisstjórnarinnar fram til þessa hafa heldur betur sýnt fram á annað og því veit formaður fjárlaganefndar, sem auk þess er löglærð, betur. Nema að hún sé vísvitandi að halda öðru fram en því sem hún veit til að afla stuðnings við tillögur sínar um að skerða réttindi opinberra starfsmanna, sem að mínum dómi væri talsvert alvarlegra en hreint þekkingarleysi,“ segir Elín Björg.

Hún segir ennfremur að margar stofnanir hafi þurft að skera mikið niður á yfirstandandi fjárlaga ári og meðal annars þurft að segja upp starfsfólki. Á sama tíma hafi verkefnum stofnana ekki fækkað og raunar hafi þau víða aukist.

„Starfsfólk hins opinbera – sem sinnir velferðarmálum, veitir heilbrigðis- og umönnunarþjónustu, sinnir öryggismálum o.s.frv. – hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf á síðustu árum á sama tíma og stöðugt hefur verið vegið að starfsheiðri þeirra. Þetta sama fólk hefur þrátt fyrir illt umtal, stöðugan niðurskurð og uppsagnir samstarfsmanna náð að sinna sínum verkefnum og gert það vel. Þetta starfsfólk á betur skilið en þessar köldu kveðjur.“


Tengdar fréttir

Uppgjörinu er ekki lokið

Sérstakur saksóknari segir að það eigi að taka fjárlög og fjárheimildir alvarlega. Embættið er komið 120 milljónum króna fram úr heimildum. Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands kallar eftir ábyrgð ríkisstjórnar og Alþingis.

Framúrkeyrsla stofnana vonbrigði

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir ríkisstjórnina enn stefna að hallalausum fjárlögum fyrir árið.

Sjö milljarða halli hjá tólf ríkisstofnunum

Rúmlega tugur ríkisstofnana hefur farið alls sjö milljarða framyfir leyfilega fjárveitingu á fyrri helmingi ársins. Fjárlaganefnd mun krefjast skýringa á þessu eftir helgi.

Enginn afsláttur gefinn á hallalausum fjárlögum

„Það er orðið tímabært að það sé slegið í borðið og þetta munstur verði rofið. Þetta verður ekki liðið lengur því það er erfitt að reka mörg ríki í ríkinu,“ segir Vigdís Hauksdóttir.

Agi og óvinsælar ákvarðanir

Það lofar góðu hversu fast fjárlaganefnd Alþingis virðist ætla að taka á eyðslu ríkisstofnana umfram fjárlög, sem hefur verið í fréttum undanfarna daga.

Ótímabært að útiloka stuðning við Landsspítalann

Ekki er tímabært að útiloka aukinn stuðning við stofnanir eins og Landspítalann sem mun að óbreyttu fara fram úr fjárheimildum um nokkur hundruð milljónir. Þetta segir Oddný G. Harðardóttir sem situr í fjárlaganefnd Alþingis. Guðlaugur Þór Þórðarsson, varaformaður fjárlaganefndar aftók með öllu í gær að því að einhver slaki yrði gagnvart einstökum ríkisstofnunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×