Innlent

Verða í skátabúningum og með regnbogalitaða klúta

Atli Ísleifsson skrifar
Skátar eru ef til vill þekktari fyrir að marsera en fara í dansskóna á laugardaginn.
Skátar eru ef til vill þekktari fyrir að marsera en fara í dansskóna á laugardaginn. Vísir/Valgarður
„Skátar eru ef til vill þekktir fyrir það að marsera en við ætlum að sýna okkar glaðara og litríkara sjálf og dansa svolítið,“ segir Inga Auðbjörg Kristjánsdóttir skáti í samtali við Vísi, en íslenskir skátar ætla að taka þátt í Gleðigöngunni í Reykjavík á laugardag.

Inga Auðbjörg segir skáta með þessu ætla að sýna mannréttindum virðingu sína. „Við ætlum að vera með vagn eins og margir aðrir en við viljum sýna fram á að þetta sé opin, viðsýn og fjölbreytt hreyfing,“ en skátarnir munu klæðast skátabúningum og regnbogalitaða klúta.

Inga Auðbjörg segir hugmyndina hafa verið setta fram í umræðuhópi skáta á vefnum og strax verið vel tekið. Segir hún framtakið mjög í anda samþykkta Skátaþings, en þar var ályktað mjög ákveðið að skátar vinni markvisst gegn hvers kyns mismunun.

„Fjölmiðlar hafa kannski ekki hjálpað okkur að sýna það að þetta sé opin og víðsýn hreyfing, en hreyfingin í Bandaríkjunum og víðar getur verið svolítið forpokuð. Til dæmis eru samkynhneigðir fullorðnir karlmenn ekki leyfðir í hreyfingunni í Bandaríkjunum. Það eru svona hlutir sem lögð er áhersla á í fjölmiðlum á Íslandi í dag,“ segir Inga Auðbjörg.

Segir hún hreyfinguna vera mjög mannréttindasinnaða. „Nú viljum við fá að vera með í gleðinni og taka almennilega þátt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×