Óútskýrðar drunur bárust frá Herðubreið um hádegisbil í gær og er ekki enn vitað hvort þær stöfuðu af snjóflóði, skriðu eða einhverju öðru, en það verður kannað nánar í dag.
Landverðir við Herðubreiðarlindir tilkynntu um drunurnar sem stóðu í um það bil 30 sekúndur. Vitað var um franska ferðamenn við rætur fjallsins og fóru menn úr hálendisvakt Landsbjargar að svipast um eftir þeim. Þeir fundust heilir á húfi og staðhæfðu að stórt snjóflóð hafi fallið úr hlíðum fjallsins að norðanverðu, en björgunarsveitarmenn sáu þó engin ummerki um slíkt. Ekki sáust heldur ummerki um skriðuföll, á borð við hamfarirnar við Öskjuvatn nýverið, þar í grenndinni og eru orsakir drunanna enn á huldu.
Að sögn Tómasar Jóhannessonar á Veðurstofunni verður málið kannað nánar í dag, en atburðurinn hefur verið skráður sem snjóflóð á heimasíðu Veðurstofunnar. Að sögn Tómasar hafa snjóflóð verið að falla hér og þar fram eftir öllu sumri, sem er óvenjulegt.
Óútskýrðar drunur frá Herðubreið

Tengdar fréttir

Snjóflóð féll í Herðubreið í gær
Snjóflóð féll úr hlíðum Herðubreiðar í gær, en engin var þar á ferð þegar það gerðist. Þetta var flekahlaup upp á þrjú stig, og féll upp úr hádegi, en flóð af þeirri stærð geta grafið bíla og skemmt eða eyðilagt heilu húsin.