Innlent

Sól í kortunum í Reykjavík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vísir/Daníel
Íbúar á höfuðborgarsvæðinu ættu að geta farið að hlakka til næstu daga ef marka má spá Veðurstofu Íslands.

Í staðaspá Veðurstofunnar er reiknað með þrettán stiga hita og sól í hádeginu á morgun. Þátttakendur í Gleðigöngunni ættu því að geta marserað um Laugaveginn í ágætu veðri.

Á sunnudaginn er væta í kortunum en í kjölfarið er talið að skýin muni yfirgefa Faxaflóa og nágrenni. Á mánudegi, þriðjudegi og miðvikudegi er nefnilega reiknað með í kringum tólf stiga hita og sól. Margir Reykvíkingar eru væntanlega búnir að fá sig fullsadda af votviðri júlímánaðar sem fór í sögubækurnar sem sá blautasti í þrjátíu ár.

Fiskidagarnir fara fram á Dalvík um helgina. Reikna má með betra veðri eins og er á laugardeginum þegar hiti verður í kringum 11 stig. Þar ætti þó að vera þurrt fram á sunnudag þegar von er á vætu.

Íbúar og ferðalangar á suðausturlandi geta reiknað með vætu og nokkrum vindi yfir helgina. Glampasólskin og lítill sem enginn vindur er hins vegar í kortinu hjá þeim á mánudag og þriðjudag.

Sólin virðist svo ætla að vera í felum á Vestfjörðum fram á þriðjudag eða miðvikudag. Þar verður þó skýjað og stillt veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×