Innlent

Svisslendingur í loftbelg vekur athygli Eyfirðinga

Bjarki Ármannsson skrifar
Eyfirðinga rak í rogastans þegar loftbelgurinn átti leið hjá.
Eyfirðinga rak í rogastans þegar loftbelgurinn átti leið hjá. Mynd/Jón Ingi Cæsarsson
Grænn loftbelgur sem sveif yfir Eyjafirðinum í gær vakti nokkra furðu íbúa á svæðinu, enda ekki algeng sjón. Um var að ræða belg Thomasar Seiz, svissnesks tölvunarfræðings sem á nokkrar landeignir í Eyjafirði. Thomas komst fyrst í fréttirnar hér á landi árið 2002 þegar hann ferðaðist víða um land á loftbelg sínum.

„Það er ekki alltaf hægt að fara upp,“ segir Thomas. „Ég var búinn að bíða í svona fjórar vikur, það var alltaf of hvasst eða bara sunnanátt. Ég get bara farið þegar það er norðanátt og ekki of hvasst.“

Í körfunni á belgnum er pláss fyrir fimm en í gær voru tveir vanir menn um borð ásamt Thomasi. Thomas, sem rekur meðal annars ferðaþjónustu á Nolli í Eyjafirði, segir ekki í boði fyrir ferðamenn að fara upp í belgnum.

„Ég er bara með leyfi til að taka fólk með mér, en ekki að selja sæti í körfunni,“ útskýrir hann.

Thomas segir það mjög gaman að skella sér upp í háloftin á þennan hátt. Eyfirðingar verði hans þó líklega ekki oftar varir í sumar.

„Það er of nálægt sjónum. Ég fer frekar hinum megin, í Skagafjörðinn eða þar í kring.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×