Innlent

Hlýjast á norðausturlandi um helgina

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Líklegt er að það verði ansi skýjað yfir helgina. Þó ætti að rofa til á sunnudegi.
Líklegt er að það verði ansi skýjað yfir helgina. Þó ætti að rofa til á sunnudegi. Vísir/Arnþór
Gestir Húnavöku á Blönduósi og Hlaupahátíðar á Vestfjörðum um helgina ættu að muna að taka með sér pollagallana, því það gæti rignt töluvert, sérstaklega á Blönduósi.

Samkvæmt spám Veðurstofu verður hiti á Blönduósi á bilinu 10-12 stig, og nokkurri úrkomu er spáð fyrir svæðið yfir helgina.

Á Vestfjörðum verður úrkoma og 10-12 stig á laugardag, en sunnudag birtir dálítið til og hiti fer upp í 15-16 stig.

Einnig stendur yfir Símamótið í fótbolta í Kópavogi. Símamótið er stúlknaknattspyrnumót í umsjón Breiðabliks. Búist er við að um það bil tíu þúsund manns heimsæki mótið, en rúmlega 1900 stúlkur keppa til sigurs.

Á höfuðborgarsvæðinu verður hiti á bilinu 12-14 stig yfir helgina. Þá verður líkast til skýjað bróðurpart helgarinnar en dulítill skúrir gæti snert á kraganum af og til.

Hvað varðar hitastig á landsvísu á laugardegi þá verður hlýjast á norður- og norðausturlandi, en þar á hiti að geta farið upp í 18-20 gráður.

Á sunnudeginum verður hiti þó nokkuð jafn yfir landinu, en um síðdegisbil á hitastigið að vera á bilinu 14-16 gráður á flestum stöðum. Þó verður aðeins kaldara á austurströnd landsins, en þar verður hiti á bilinu 8-10 gráður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×