Innlent

Skelkuðum ferðamönnum komið til bjargar

GIssur Sigurðsson skrifar
Langisjór.
Langisjór. Mynd/Umhverfisráðuneytið
Björgunarsveitarmenn úr hálendisvakt Landsbjargar komu skelkuðum erlendum ferðamönnum til aðstoðar við Langasjó í nótt. Fólksbíll rann í vatnselg út af þjóðveginum á Fljótsdalshéraði undir morgun og stórt skemmtiferðaskip með þrjú þúsund farþega hætti við að koma til Ísafjarðar í morgun vegna veðurs.

Ferðamennirnir tveir við Langasjó voru þó ekki lentir í alvarlegum vandræðum en voru skelfingu lostnir vegna veðursins og allra krignumstæðna. Þeir knúsuðu björgunarfólkið og trakteruðu með dýrindis súkkulaði að sögn Hafdísar Árnadóttur sem tók þátt í leiðangrinum. Vatn streymir enn inná vegina um fjallabak og eru þeir ófærir nema öflugum jeppum að sögn Hafdísar.

Ung kona missti stjórn á bíl sínum í miklum vatnselg á Fljótsdalshéraði undir morgun og valt bíllinn út af veginum. Hún meiddist ekki alvarlega, og tvær aðrar stúlkur, sem voru með henni, sluppu ómeiddar.

Mjög mikið rennsli mælist nú í flest öllum ám þar sem Veðurstofan hefur straummæla. Undir kvöld í gær varaði Veðurstofan við vatnavöxtum í ám á Snæfellsnesi, vestur- og suður af Langjökli, kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökla og við sunnanverðan Vatnajökul.

Minna var um vandræði vegna veðursins en óttast var enda virðast margir ferðamenn hafa haldið kyrru fyrir í gær vegna slæmrar veðurspár. Það er líka afleitt sjóveður og er nú stormur á 13 af 17 spásvæðum umhverfis landið og fá skip á sjó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×