Innlent

Færa hátíðina yfir á Patreksfjörð vegna veðurs

Stefán Árni Pálsson skrifar
MYND/FRIÐRIK ÖRN HJALTESTED
Aðstandendur hátíðarinnar Rauðasandur Festival í samráði við sveitarfélagið Vesturbyggð og lögregluembætti Vestfjarða hafa tekið þá ákvörðun í ljósi veðurfarslegra aðstæðna að færa hátíðina yfir á Patreksfjörð að svo stöddu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsvarsmönnum hátíðarinnar. Hátíðin hefst í kvöld og mun dagskrá lítið riðlast en dagskrárliðir fara fram í og við Sjóræningjahúsið á Patreksfirði en hátíðargestir fá gistingu inni í Félagsheimilinu á Patreksfirði.

Aðstandendur hátíðarinnar vilja beina öllum gestum sem eru nú þegar á leið vestur að koma beint inn á Patreksfjörð og í Félagsheimilið til að fá frekari fréttir um dagskrána og fyrirkomulag varðandi gistingu.

Aðstandendur hátíðarinnar vilja koma á framfæri þakklæti til sveitarfélagsins Vesturbyggðar og lögregluembættis Vestfjarða fyrir samvinnuna en samin hafði verið aðgerðaráætlun fyrr á þessu ári ef aðstæður sem þessar myndu skapast.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×