Innlent

Húsbíll fauk á hliðina og ferðamenn fela sig neðanjarðar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
MYND/ÆGIR ÞÓR ÞÓRSSON
Hús­bíll fauk út af þjóðveg­in­um milli Arn­arstapa og Hellna á Snæ­fellsnesi í dag og kastaðist langt út fyr­ir veg­inn. Mbl greindi fyrst frá þessu. Samkvæmt lögreglunni á Ólafsvík hefur bíllinn líklega farið tvær til þrjár veltur áður en hann staðnæmdist á hliðinni. Húsbíllinn er talinn óökufær.

Vindstrengur sem kemur sunnan við jökulinn er sérstaklega varasamur og biðlar lögreglan til ferðamanna að keyra ekki um veginn á stærri bílum, eins og húsbílum, eða með kerrur og aðra aftanívagna.

„Veðrið er alveg með ágætum. Nálægasta veðurathugunarstöð segir að vindhraðinn sé um 13 metrar á sekúndu sem er ekki nándar nærri nóg til að feykja húsbíl sem þessum af veginum. Það er þessi staðbundni strengur við jökulinn sem er sérstaklega varasamur,“ segir Ægir Þór Þórsson sem staddur var við Vatnshelli á Snæfellsnesi þegar Vísir náði í hann.

Hann segir töluverðan fjölda ferðamanna á svæðinu, flestir erlendir, sem marga hverja hafi rekið í rogastans í vindhviðunum.

„Þeir koma til okkar og spyrja okkur hvort þetta sé eðlilegt ástand,“ segir Ægir léttur í bragði og bætir við að margir hverjir hafi brugðið á það ráð að leita skjóls í hellinum. „Enda fátt annað að gera í vindi eins og þessum en að bregða sér neðanjarðar.“

Að sögn Ægis eru um 20 bílar á stæðinu við Vatnshelli núna, flestir litlir bílaleigubílar. „Enda held ég að það sé sé nánast alveg ófært fyrir húsbíla og aftanívagna,“ bætir Ægir við. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×