Innlent

Spuni frá Vesturkoti fyljar merar fyrir 20 milljónir í sumar

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Spuni, hæst dæmdi stóðhestur heims var upp á sitt besta í gær þegar hann fékk loksins að hitta merar í girðingu í Vesturskoti á Skeiðum. Spuni sigrað í A-flokki á Landsmóti hestamanna á Hellu um síðustu helgi. Spuni mun fylja um sjötíu merar í sumar eða fyrir tæplega tuttugu milljónir króna því folatollur undir hann kostar 275 þúsund krónur.

Finnur Ingólfsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, býr í Vesturkoti á Skeiðum þar sem fjölskyldan er með hrossaræktarbú. Dóttir Finns, Hulda, á stóðhestinn Spuna en hún fékk hann í gjöf frá foreldrum sínum þegar hann var tveggja vetra en hesturinn er átta vetra í dag. 

Spuni er hæst dæmdi stóðhestur heims en hann fékk m.a. 10 í einkunn fyrir skeið, 10 fyrir vilja og 9 fyrir tölt og brokk í dómi á sínum tíma. Þórarinn Ragnarsson hefur séð um þjálfun Spuna og reið honum til sigurs í A-flokki á landsmótinu á Hellu um síðustu helgi. 

Hulda Finnsdóttir.vísir/magnús hlynur
„Þetta er hæst dæmdi hestur í heimi allra tíma, ég hef aldrei kynnst hesti, sem er í neinu líkingu við hann,“ segir Þórarinn.

En hvernig lýsir Hulda Spuna ?

„Hann er bara einstakur gæðingur, hann er engum líkur og þú getur treyst honum fyrir öllu. Hann er eins og klettur og hann er mjög öruggur með sjálfan sig eins og í allri umgengni, líka þegar þú ert komin á bak. Það er ekkert sem truflar hann, þú getur ekki hitt neitt sem hann verður hræddur við. Hann er bara einstakur, þetta er bara algjör gæðingur“, segir Hulda.

Spuna var sleppt í gær út í girðingu til mera en hann mun sinna 60–70 merum á næstu vikum en gríðarleg aðsókn er í að fá folald undan honum. Folatollurinn kostar 275 þúsund krónur.

En er Spuni falur fyrir rétt verð, t.d. fyrir 100 milljónir króna? „Nei, því miður,“ segir Hulda og hlær.

En 200 milljónir króna?

„Ég myndi hugsa það kannski en ég efast um að það sé einhver sem á svo mikla peninga. Ef svo er þá bara bíð ég spennt eftir honum. Allavega eins og staðan er núna þá er engin upphæð sem hann er falur á,“ segir eigandi Spuna.

Þórarinn og Spuni.vísir/magnús hlynur

Tengdar fréttir

Landsmótið sett í blíðskaparveðri

Þrátt fyrir að veður hafi sett töluvert strik í reikninginn síðastliðna daga hafa landsmótsgestir ekki látið það mikið á sig fá og hefur það verið nokkuð vel sótt.

Hestakosturinn sérlega sterkur

Hvassviðri einkenndi Landsmót hestamanna sem lauk í gær á Gaddstaðaflötum. Fágæt einkunn var gefin í tölti og heimsmet féll í skeiði. Fjögur þúsund útlendingar voru á meðal tíu þúsund mótsgesta. Er það rakið til mikillar markaðssetningar.

Heimsmet á Hellu

Heldur betur hefur ræst úr veðri á Gaddstaðaflötum á Hellu og sólin farin að skína á gesti landsmóts hestamanna.

Segir hugarfar hestamanna byggjast á afneitun

Tungubogar, sem sagðir eru stríða gegn dýravelferðarlögum, eru enn í notkun meðal hestamanna. Hestafræðingur sakar hestamenn um að neita að horfast í augu við staðreyndir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×