Innlent

Stormur á Vesturlandi: „Júní var blautur og júlí byrjar blautur“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Blautt verður á höfuðborgarsvæðinu nú í byrjun viku.
Blautt verður á höfuðborgarsvæðinu nú í byrjun viku.
Áframhaldandi rigning er í kortunum fyrir sunnanvert landið í byrjun viku. Vegagerðin birti í morgun ábendingu um strekkingsvind á suðvesturlandi. Verða hviður allt að 25-30 metrar á sekúndu undir Hafnarfjalli og á norðanverðu Snæfellsnesi um hádegi. Lægir þegar líður á daginn en á morgun má búast við óveðri á vestanverðu landinu, gæti jafnvel orðið stormur á vestanverðu landinu með vindhviðum sem ná allt að 35 metrum á sekúndu.

„Það rignir líka á norðausturlandi en mun minna,“ sagði Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi. „Á miðvikudag og fimmtudag verður vindurinn kominn í norðvestanátt og þá færist úrkoman meira yfir á norðanvert landið.“ Hann spáir að öllum líkindum þurri helgi á sunnanverðu landinu en því er þveröfugt farið með norðurland. „Það má segja að það sé blautt og svalt veður,“ sagði Haraldur sem vildi lítið spá um hvort stefndi í rigningasumar á sunnanverðu landinu annað sumarið í röð. „Júní var blautur og júlí byrjar blautur. En við verðum að sjá til.“

Á morgun verður rigning en meira rok á sunnanverðu landinu eins og fyrr segir en virðist ætla að vera með mestu ágætum á Norðurlandi, heiðskírt og sól, en vindasamt.

Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðurspánni í vikunni þar sem að djúp lægð er að ganga yfir landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×