Innlent

Sýknaður af ákæru um nauðgun í tjaldi á Þjóðhátíð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Þjóðhátíð.
Frá Þjóðhátíð. Vísir/Óskar P. Friðriksson
Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið sýknaður af ákæru um nauðgun frá því á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum sumarið 2012. Var maðurinn ákærður fyrir að hafa þröngvað stúlkunni, sem þá var átján ára, til samræðis í tjaldi stúlkunnar sem hann hafði kynnst nokkrum mínútum fyrr. Bótakröfu stúlkunnar upp á tvær og hálfa milljón krónur var vísað frá dómi.

Í dómnum kemur fram að ákærði hafi komið að vinahópi stúlkunnar um kvöldið og slegið hana utan undir. Sagðist hann hafa gert það til að vekja athygli hennar á sér. Bað hann hana afsökunar með kossi og nokkrum mínútum síðar hafi þau fært sig inn í tjaldið. Þar greinir þeim hins vegar á hvað gerst hafi. Ákærði segist hafa haft samræði við stúlkuna með hennar samþykki. Hún segist hins vegar hafa barist um og reynt að koma manninum af sér og allan tímann öskrað „hættu, hættu“.

Fór stúlkan, sem þá var átján ára, á neyðarmóttöku morguninn eftir og var maðurinn handtekinn um kvöldið. Málið var hins vegar ekki kært til lögreglu fyrr en í janúar síðastliðnum. Hafði það áhrif á trúverðugleika í framburði vitna, sem öll voru undir áhrifum áfengis umrædda nótt og lítið samræmi í vitnisburði þeirra, hve langt var liðið frá meintri nauðgun.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að viðbrögð stúlkunnar þegar hún kom út úr tjaldinu, eftir meinta nauðgun, hafi ekki verið trúverðug í ljós þess ofbeldis sem hún greindi lögreglu frá að hafa orðið fyrir. Sagði hún manninn hafa haldið henni niðri, bitið í neðri vör og ítrekað tekið harkalega í hár hennar. Maðurinn neitaði allan tímann sök.

Þá segir í dómnum ekki hægt að horfa fram hjá því við mat á trúverðugleika framburðar brotaþola að hún taldi í tvígang ástæður til þess í yfirheyrslu hjá lögreglu að taka fram að hún væri að segja satt og rétt frá.

„Í fyrra skiptið, undir lok skýrslutökunnar, sem stóð í um eina klukkustund, þegar brotaþoli sagði „ég er ekki að ljúga þessu.“ Stuttu síðar, þegar lögregla spurði brotaþola hvort hún teldi allt komið fram af hennar hálfu, sagðist brotaþoli vilja vera viss um að lögreglan tryði sér, en heldi ekki að hún væri að reyna að fá athygli.“

Var stúlkan sérstaklega spurð um þessi ummæli sín fyrir dómi og greindi hún frá því að hafa á þessum tíma óttast að lögregla teldi hana vera að sækjast eftir athygli og vísað til slæmrar reynslu af því að hafa sagt fjölskyldu sinni frá óskyldu en erfiðu máli sem tengdist tilteknum fjölskyldumeðlimum eins og segir í dómnum.

Var það mat dómsins að framburður stúlkunnar væri ekki trúverðugur. Engir líkamlegir áverkar hafi verið sýnilegir á stúlkunni og rannsókn lögreglu hafi ekki staðfest þá hárreytingu sem haldið var fram. Var málinu vísað frá dómi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×