Innlent

Fékk útrunninn gjaldeyri hjá bankanum: „Fyrst og fremst vítavert“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Bjarni Þór Sigurðsson fór í stutta ferð til Svíþjóðar nú í júní.
Bjarni Þór Sigurðsson fór í stutta ferð til Svíþjóðar nú í júní. VÍSIR/GVA
„Landsbankinn greinilega kaupir bara pening á útsölu og selur hann á fullu verði,“ segir Bjarni Þór Sigurðsson, sem lenti í því nýlega að kaupa sænskan gjaldeyri í Landsbankanum Leifsstöð en þegar hann kom til Svíþjóðar gat hann ekki borgað með þeim. „Ég ætlaði að taka leigubíl og borga með þeim en gat það ekki. Ég hélt fyrst að þetta væri grín. En síðan fór ég í bankann og þá sögðu þau að þetta væri svo löngu útrunnið að ég þurfti að fylla út form, senda það til Seðlabankans í Svíþjóð og myndi svo fá þetta endurgreitt eftir nokkrar vikur eða mánuði.“

Bjarni var að vonum ósáttur með viðskiptin og þegar hann hafði samband við Landsbankann var honum sagt að koma með peninginn í það útibú sem afhendi honum peninginn. En Bjarni á ekki leið upp á Leifstöð á næstunni. „Ég brást illa við þessu,“ útskýrir hann. „Og þá var hringt daginn eftir og mér sagt að ég gæti farið með þetta í hvaða útibú sem er.“

Bjarni hefur ekki farið með peninginn en um 300 sænskar krónur var að ræða. Það gera um 5000 íslenskar krónur. Hann segist sem betur fer hafa verið með kort og því ekki þurft að reiða sig eingöngu á gjaldeyri. „Fyrst og fremst vítavert að banki skuli afgreiða útrunna seðla,“ segir Bjarni. „Það er mjög slæmt ef fólk fær svona afgreitt í banka, svona monopoly peninga.“ Hann leggur áherslu á að fólk verði að geta treyst því að það fái vöruna rétt afgreidda í banka.

Kristján Kristjánsson, fjölmiðlafulltrúi Landsbankans segir mistök sem þessi sem betur fer ekki gerast oft.
Kristján Kristjánsson, fjölmiðlafulltrúi Landsbankans, segir ómögulegt að segja til um hvernig svona gerist. „Það er augljóst að við höfum gert mistök þarna úti í Leifstöð. Við höfum látið hann hafa úrelta seðla og við viljum biðja manninn afsökunar.“ Hann segir að Bjarni geti komið í það útibú sem henti honum best til að skila peningunum. „Við værum mjög þakklát fyrir það að hann myndi koma til að við gætum tekið þá til handagagns.“

Kristján segir þetta sem betur fer mjög sjaldgæft atvik. Mikil áhersla sé lögð á að starfsmenn þekki nákvæmlega við hvaða seðlum má taka. „Mér skilst að þessir seðlar séu mjög líkir, gamli og nýi sænski seðillinn, fólki bara yfirsést.“ Hann endurtekur það að hann vilji biðja Bjarna afsökunar. „Hann verður ekki fyrir neinum skaða öðrum en þeim óþægindum sem hann hefur þegar orðið fyrir.“

En getur fólk þá treyst Landsbankanum?

„Að sjálfsögðu getur það treyst Landsbankanum,“ fullyrðir hann. „Það er ekki spurning.“ 

Hér gefur að líta krónurnar sem Bjarni keypti hjá Landsbankanum.VÍSIR/GVA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×