Innlent

Goggi eignast nýtt heimili og vin

Bjarki Ármannsson skrifar
Goggi (t.h.) og Dóra eru strax orðin mestu mátar.
Goggi (t.h.) og Dóra eru strax orðin mestu mátar. Mynd/Helgi Svenibjörnsson
Gæsaunginn Goggi hefur eignast nýtt heimili, og mögulega nýjan vin af gæsakyni, í Dýragarðinum í Slakka í Biskupstungum. Goggi sló í gegn í kvöldfréttum Stöðvar tvö um helgina, en þar var sagt frá því að hjónin Gústav Kristján Gústavsson og Margrét Sólveig Ólafsdóttir höfðu séð um ungann frá því að hundurinn þeirra kom með egg inn á heimilið úr ætisleit.

Hjónin sögðu það „skemmtilegt verkefni“ að ala upp gæsaunga, en þurftu engu að síður að auglýsa eftir nýju heimili handa honum til frambúðar. Af nokkrum álitlegum boðum varð Dýragarðurinn í Slakka fyrir valinu. Þangað var hann fluttur í gær en fyrir er gæsin Dóra sem flutti í dýragarðinn fyrir stuttu.

„Sagan af henni er líka mjög skemmtileg,“ segir Helgi Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri dýragarðsins. „Það er maður á Selfossi og dóttir hans kom inn með gæsaegg á dögunum og segir: Ég ætla að setja þetta á ofninn og unga út.“

Faðir stúlkunnar þvertók fyrir það og setti eggið í staðinn upp á skáp í stofunni.

„Svo daginn eftir, þegar þau koma heim, eru einhver lifandis læti upp á skáp,“ segir Helgi. „Þá var það bara gæsaunginn sem hafði komið sjálfur út úr egginu.“

Nú búa því Dóra og Goggi saman í Slakka og þykja bæði með eindæmum gæf og góð við mannfólk. Hægt er að heimsækja gæsirnar tvær á nýja samastað þeirra, en dýragarðurinn er opinn alla daga vikunnar milli 11 og 18.

Gústav og Margrét afhenda heimilisfólkinu í Slakka gleðigjafann í gær.Mynd/Helgi Sveinbjörnsson

Tengdar fréttir

Gæsaunginn Goggi mun fá nýtt heimili

„Það eru nokkrir álitlegir kostir og erfitt að velja,“ segir Margrét Sólveig Ólafsdóttur, sem séð hefur um ungann undanfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×