Innlent

Tóku gæsaunga í fóstur úr kjafti heimilishundsins

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Gæsaunginn Goggi hefur átt ótrúlega 11 daga ævi á Álftanesi eftir að heimilishundur kom með hann heim úr ætisleit. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld voru hjónin Gústav Kristján Gústavsson og Margrét Sólveig Ólafsdóttir heimsótt en þau hafa séð um gæsaungann frá því 12. júní er Prins fór í ætisleit í nágreni við hús þeirra hjóna.

„Ég var að slá garðinn og hundurinn var laus, fór rétt út í móann. Hann kemur tilbaka með egg í kjaftinum. Út úr egginu stóð goggur. Ég reyndi að finna hreiðrið en það fannst ekki,“ segir Gústav. Þau hjónin tóku því gæsaungann í fóstur.

„Þetta gekk svona glimrandi vel - hann heldur að við séum foreldrar sínir,“ segir Margrét.

Veiðihundurinn lætur ungann í friði

Þrátt fyrir að vera fjarri heimahögum þá hefur gæsaunginn Goggi vaxið úr grasi á heimili þeirra Gústavs og Margrétar á Álftanesi. Goggi eltir heimilisfólkið hvert sem það fer. Hundurinn Prins er af veiðihundakyni en lætur þrátt fyrir það Gogga alveg í friði.

„Ég held að Prins sjái svolítið eftir að hafa komið með hann heim. Hann fær ekki mikla athygli þessa dagana,“ segir Gústav og hlær. „Unginn er farinn að éta matinn hans líka og Prins er ekkert sérstaklega ánægður með það. Prins lætur ungann samt alveg í friði.“

Goggi heimsótti Norðurland

Goggi hefur farið víða á 11 daga ævi og fylgdi þeim hjónum norður á Siglufjörð fyrir skömmu í sumarbústaðarferð. Sumarfríið hjá þeim hjónum er brátt á enda og er framtíð Gogga gæsaunga óljós.

„Við höfðum samband við Húsdýragarðinn en þeir sögðust ekki geta tekið við Gogga,“ segir Gústav. „Við höfum verið í fríi en förum aftur að vinna eftir helgi þannig að nú þarf Goggi kannski að komast í fóstur,“ bætir Margrét við.

Hjónin á Álftanesi ætla að reyna að koma Gogga aftur í sín náttúrulegu híbýli enda sjá þau ekki fyrir sér að bæta gæs við í fjölskylduna til frambúðar. Þeir sem telja sig geta skotið skjólshúsi yfir Gogga litla til frambúðar er bent á að hafa samband við Gústav með tölvupósti. Þó að Prins fagni því örugglega að endurheimta athygli heimilisfólksins á Fálkastíg þá mun hann eflaust sakna Gogga litla - í það minnsta örlítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×