Innlent

Óttast ekki að hátt verð dragi úr komu erlendra ferðamanna

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra og ráðherra ferðamála.
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra og ráðherra ferðamála.
Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra ferðamála óttast ekki að hátt verðlag innan ferðaþjónustunnar hafi áhrif á komu erlendra ferðamanna hingað til lands. Hún fagnar umræðunni um málið og segir það vera neytenda en ekki ríkisins að sýna ferðaþjónustufyrirtækjum aðhald.

„Ég tel það mjög gott að fá þessa umræðu upp á yfirborðið. Í henni felst aðhald, í henni felst kannski lausnin á þessu, við sem neytendur höfum val um að beina viðskiptum okkar annað ef að við teljum að menn séu að verðleggja sig útaf markaðnum. Það er kannski besta lausnin á þessu. Við þurfum öll að gæta okkur á því í okkar viðskiptum hvort sem við erum kaupendur eða seljendur. Það er leiðin til að leiðrétta þetta ástand ef að það er þannig. Nú eru þetta einstök dæmi sem eru að koma hingað og þangað og ég veit ekki hversu vísindaleg sú rannsókn er. Það er ekkert sem hið opinbera getur gert eða í raun á að gera. Ég held að fæst okkar myndu vilja hafa verðlagsráð ríkisins til að gefa út gjaldskrár hvort sem það er í ferðaþjónustu eða öðrum atvinnugreinum,“ segir Ragnheiður.

Hún óttast ekki að þetta muni draga úr komu erlendra ferðamanna hingað til lands.



„Ég held að ferðamenn sem hingað koma geri sér almennt grein fyrir því að Ísland er ekki ódýr áfangastaður. Og það er svona almenn vitneskja og það á ekki bara við um Ísland heldur til dæmis Norðurlöndin almennt. Þetta er kannski líka alltaf spurning um jafnvægi. Í aðra röndina segjum við að við séum að verðleggja okkur alltof hátt en svo er hin hliðin sú að við viljum fá meiri tekjur af hverjum ferðamanni sem kemur hingað til lands,“ segir Ragnheiður.


Tengdar fréttir

Ein flatkaka á verði fimm pakka

Sagan um tertusneiðina er síður en svo einsdæmi. Á kaffihúsi einu niður í bæ kostar heimabakað flatbrauð með hangikjöti 1290 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×