Innlent

Kaup á aðgerðarþjarka fyrir Landspítala tryggð

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kristján Þór Júlíusson, Páll Matthíasson og Brynjólfur Bjarnason við undirritunina í dag.
Kristján Þór Júlíusson, Páll Matthíasson og Brynjólfur Bjarnason við undirritunina í dag. MYND/Velferðarráðuneytið
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala og Brynjólfur Bjarnason, formaður stjórnar Söfnunarsjóðs um aðgerðaþjarka fyrir Landspítala undirrituðu í dag samkomulag um fjármögnun aðgerðaþjarka fyrir spítalann.

Við sama tækifæri var afhent söfnunarfé sem stendur undir nærri helmingi kaupverðsins. Þetta kemur fram á vef velferðarráðuneytisins.

Söfnunarátak til kaupa á þjarkanum hófst fyrir tveimur árum. Stofnaður var söfnunarsjóður og varð að samkomulagi milli sjóðsins og Landspítalans að þjarkinn yrði keyptur tækist að safna fyrir um helmingi kaupverðsins. Átakinu lauk með því að Pokasjóður lagði fram 25 milljónir króna í söfnunina. Þar með voru komnar 110 milljónir í sjóðinn og fjármögnunin þar með tryggð.



Á síðustu árum hefur svokallaður aðgerðarþjarki (róbót) verið tekinn í notkun á helstu sjúkrahúsum í nágrannalöndunum. Búnaðurinn nýtist til margvíslegra skurðaðgerða, sérstaklega þó við þvagfæraskurðlækningar og aðgerðir á grindarholslíffærum kvenna. Aðgerðir með þessari aðferð eru inngripsminni en ella, bati er skjótari og hægt að hlífa betur nærliggjandi líffærum og viðkvæmri starfsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×