Innlent

Grunar Hafnarfjarðarbæ um „mjög alvarlega skjalafölsun“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Visir/stefán
Helgi Númason endurskoðandi hefur farið þess á leit við Hafnafjarðarbæ að bæjarfélagið útskýri hvers vegna nafns skrifstofu hans hafi verið notað á þremur ársreikningum félags í eigu bæjarins.

Þetta kemur fram í fundargerð bæjarstjórnar vegna fundar hennar í gær.

Í bréfi frá lögmannsskrifstofu mannsins eru málavextir tíundaðir en í júlímánuði árið 2009 stofnaði Hafnarfjarðabær einkahlutafélagið GN eignir ehf. en hlutverk þess var að taka yfir skóla- og leikskólabyggingar sem bærinn hafði áður leigt af Nýsi áður en félagið fór í þrot.

Í bréfinu kemur fram að Helgi hafi, við stofnun GN eigna, tekið að sér að vera endurskoðandi þess en að hann hafi ekki komið að endurskoðun ársreikninga félagsins frá því að ársreikningur vegna 2009 var gerður. Honum hafi þó orðið ljóst fyrir skömmu að svo virtist sem árseikningar félagsins hafa alla tíð borið það með sér að skrifstofa hans hafi endurskoðað þá.

„Sé það rétt, þá er um grófa misnotkun á nafni hans og faglegum heiðri að ræða, auk þess sem slík háttsemi hlýtur að teljast mjög alvarleg skjalafölsun,“ segir í bréfi lögmannstofunnar og bætt er við að um grafalvarlegt mál gæti verið að ræða sem umbjóðandinn taki mjög nærri sér.

Vísir kannaði ársreikninga GN eigna hjá Creditinfo og bera þeir vitni um að Helgi og skrifstofa hans séu einnig sögð hafa skrifað undir reikninga félagsins fyrir árin 2010, 2011 og 2012.

Bæjarráð Hafnfjarðar hefur falið sviðsstjóra að svara erindi Helga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×