Innlent

Skemmdarverk við heimili í miðbænum: "Fólk gengur hérna framhjá um helgar og tekur hluti, brýtur og skemmir“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá Helgu við brotna blómapottinn.
Hér má sjá Helgu við brotna blómapottinn. VÍSIR/KT
„Þegar ég sá þetta fór ég bara að gráta,“ segir Helga Stephensen, íbúi í miðbæ Reykjavíkur. Þegar hún kom út í morgun sá hún að búið var að brjóta stóran blómapott sem var fyrir utan heimilið hennar.

„Þetta hefur gerst alltof oft. Fólk gengur hérna framhjá um helgar og tekur hluti, brýtur og skemmir. Maður vill reyna að hafa fallegt í kringum sig en það er varla hægt, því fólk – trúlega í einhverju ölæði – skemmir hluti algjörlega að ástæðulausu,“ segir hún.

Í gærkvöldi heyrði Helga einhvern umgang fyrir utan húsið sitt – sem er algengt um helgar – og grunaði að þeir sem væru fyrir utan myndu brjóta eitthvað. „Ég heyrði í þeim fyrir utan seint í gærkvöldi en ég þorði ekki út. Svo þegar ég kíkti út í morgun þá blasti við mér þessi brotni blómapottur. Það hefur þurft tvo til þess að lyfta honum upp og brjóta hann.“

Í pottinum voru blóm sem Helga var búin að rækta.
Álag á íbúum miðbæjarins

Helga býr við Laufásveg og segist þykja vænt um hverfið sitt. „Þetta er eitt elsta hverfi Reykjavíkur og er einstaklega fallegt. Það er álag á íbúum miðbæjarins að halda honum fallegum, því hingað fáum við mikið af ferðamönnum. Margir ferðamenn stoppa fyrir utan hjá mér og skoða blómin mín og spjalla. Ég legg mig fram við að hafa fallegt hérna í kringum húsið. En það er varla hægt vegna þessara skemmdaverka. Eða tja...ég veit eiginlega ekki hvað ég á að kalla þetta,“ segir hún.

Helga segir svona hluti gerast alltof oft. „Já, hér hverfa stundum hlutir. Það er eins og fólk taki þá bara og svo kannski kastar það þeim einhversstaðar frá sér, eins og þeir skipti engu máli. Stundum hafa bílar stoppað hérna og einhverjir komið út og stolið hlutum. Þetta er bara alveg ömurlegt.“

Hér má sjá brotna blómapottin.Vísir/KT
Var eins og útihátíð um hverja helgi

Í blómapottinum sem var brotin í nótt voru blóm sem Helga hafði lagt sig fram við að rækta. „Manni þykir þetta auðvitað hundleiðinlegt.“

Helga segir mikið hafa lagast eftir að leigubílar hættu að stoppa á Lækjargötu, skammt frá heimili hennar. „Þá var þetta bara eins og útihátíð um hverja helgi. Lætin voru rosaleg langt fram eftir nóttu.“

Helga hvetur fólk til að hugsa sig um þegar það gengur um miðbæinn að nóttu til og muna eftir að þar býr fólk. „Hér hafa rúður verið brotnar, spreyjað veggi og ýmislegt þannig – hlutir bara skemmdir. Ég vona að með því að ræða hlutina svona, þá hugsi einhverjir sig tvisvar um.“

Hér má sjá Helgu fyrir utan heimilið sitt. Hún segist leggja sig fram við að halda öllu fallegu og að ferðamenn stoppi gjarnan fyrir utan hjá henni.VÍSIR/KT
.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×