Innlent

Óvenju öflug lægð yfir landinu um miðja viku

Randver Kári Randversson skrifar
Rok og rigning verður á suðvestanverðu landinu á þriðjudag og miðvikudag.
Rok og rigning verður á suðvestanverðu landinu á þriðjudag og miðvikudag. Vísir/Anton
Útlit er fyrir vonskuveður um miðja vikuna, þar sem óvenju öflug lægð miðað við árstíma fer yfir landið með tilheyrandi rigningu og hvassviðri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Mikil rigning og hvassviðri verður á landinu á þriðjudag, einkum suðvestanlands. Á miðvikudag verður mest úrkoma norðvestanlands og á Vestfjörðum en hvassast úr norðvestri á suðvestanverðu landinu. Fólk sem hyggur á ferðalög er hvatt til að fylgjast vel með veðurspám næstu daga.

Að þessu tilefni hefur Veðurstofa Íslands sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:

Viðvörun vegna óvenju djúprar lægðar 1. - 5. júli

Gert er ráð fyrir óvenju öflugri lægð miðað við árstíma á þriðjudag, sem fer yfir landið á miðvikudag.

Á þriðjudag verður lægðin vestur af landinu og vindáttin því suðaustlæg og má búast við að vindstyrkurinn verði á bilinu 10-18 m/s, einna hvassast um landið SV-vert og hviður við fjöll allt að 35 m/s. Þessu fylgir mikil rigning, mest sunnanlands síðdegis og um kvöldið.

Á miðvikudag er að sjá að lægðin fari til norðausturs og verði skammt norður af landinu. Á þessari stundu er óvíst hvar versta veðrið verði, en vísbendingar eru um að mesti vindurinn verði úr norðvestri um landið suðvestanvert um kvöldið á meðan mesta úrkoman verður líklega norðvestanlands og á Vestfjörðum.

Síðan er gert ráð fyrir að lægðin fari til austurs og ákveðin norðanátt taki yfir með rigningu fyrir norðan, en þurrt að kalla syðra.

Lítið þarf út af að bera í staðsetningu lægðarinnar til að áhvarða hvar versta verðið verður á hverjum tíma, þannig að einhverra breytinga er að vænta þegar nær dregur. 

Að gefnu tilefni viljum við minna þá ferðalanga á sem eru með aftanívagna að huga sérstaklega að veðurathugunum og veðurspá næstu daga og að þeir sem eru að fara að heiman að huga að lausamunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×