Innlent

Segir aðferðafræðina við flutning Fiskistofu kolranga

Linda Blöndal skrifar
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR.
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR. Vísir/Rósa
Aðferðafræðin við flutning höfuðstöðva Fiskistofu er kolröng og úrelt, segir Árni Stefán Jónsson, formaður SFR. Árni Stefán nefnir sérstaklega að sú leið að flytja tugi manna landshluta á milli ásamt fjölskyldum sínum sé aðferð sem sé ekki lengur viðhöfð.

„Ef markmiðið með þessu er að fjölga störfum á landsbyggðinni þá finnst mér þessi aðferðafræði algjörlega út í hött. Ég hélt að þessi aðferðafræði hefði orðið undir. Ef menn vilja fjölga opinberum störfum úti á landsbyggðinni, sem ég í sjálfu sér hef alls ekki á móti, þá eiga menn að byrja þegar koma upp ný verkefni,“ segir Árni í samtali við fréttastofu Bylgjunnar.

Við þetta mun þurfa að byggjastofnunina upp frá grunni á nýjum stað, segir Stefán, og að það muni bitna illa á faglegu gildi hennar.

„Við munum bara setja okkur í samband við ráðuneytið og við munum tala við okkar félagsmenn og við munum fara yfir málið, hvernig lagalega hliðin stendur í þessu. Þarf ekki að breyta lögum? Þarf þetta ekki að fara fyrir Alþingi? Hver er réttarstaða starfsmanna? Og svo framvegis.“ 

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu lýsa efasemdum og andstöðu við aðgerðina.

Jón Gunnarsson, þingmaður suðvesturkjördæmis og formaður atvinnuveganefndar Alþingis lýsti í samtali við fréttastofu Bylgjunnar í morgun einnig áhyggjum sínum af þessari aðgerð, vegna atvinnumála í Hafnarfirði og bendir á að nýlega tapaði bærinn 60% af aflaheimildum sínum en einnig þurfi að taka tillit til fjölskylduaðstæðna starfsfólksins og það þurfi að taka alvarlega.

Þá skrifar Brynjar Níelsson á Facebook-síðu sína að aðgerðin sé ekki boðleg. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×