Innlent

Flugvél nauðlenti á Vatnsleysuströnd og endaði á hvolfi

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Flugvél nauðlenti á golfvellinum á Vatnsleysuströnd um fimmleytið í dag. Tveir voru um borð og slösuðust ekki alvarlega, samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliði Reykjanesbæjar. Vélin endaði á hvolfi eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Talið er að flugvélin, sem er kennsluflugvél frá flugskóla Keilis, hafi misst afl og flugmenn vélarinnar neyðst til þess að nauðlenda við golfvöllinn í Vogum.

Víkurfréttir greindu fyrst frá málinu og þar kemur fram að þeir tveir sem voru í flugvélinni þegar hún brotlenti og endaði á hvolfi, hafi gengið frá slysstaðnum.

Uppfært 17:41

Fréttastofu hafa borist nýjar upplýsingar um málið. Þeir tveir sem voru um borð þiggja nú áfallahjálp inni í sjúkrabíl á svæðinu og verða svo fluttir með þyrlu á Landspítalann.

Uppfært 18:02

Sjónarvottar staðfesta upplýsingar frá slökkviliðinu, að mótor flugvélarinnar hafi misst afl. Í nauðlendingunni lenti vélin á einhverskonar hindrun og endaði á hvolfi. Allar björgunarsveitir á svæðinu voru ræstar út, auk fólks frá Landsbjörgu, lögreglu og slökkviliði. Rannsóknarnefnd samgönguslysa er einnig komin á staðinn.

Uppfært 18:25

Fréttastofu hafa borist nýjar upplýsingar frá vettvangi slyssins. Talið er að vélin hafi misst afl í mótor þegar hún var úti yfir sjónum, skammt frá Kálfatjörn. Talið er að flugmaður og flugstjóri hafi gert tilraun til þess að lenda vélinni á annarri braut golfvallarins á Vatnsleysuströnd.

Þyrlan TF-Sýn var kölluð út. Þeir sem voru um borð vélarinnar fóru í sjúkrabíl og fengu áfallahjálp á vettvangi. Á sjöunda tímanum voru þeir enn í bílnum og var talið ólíklegt að þeir þyrftu aðhlynningu á spítala. Því er ekki talið líklegt að þeir verði fluttir með þyrlunni, að svo stöddu.

Hér má sjá flugvélina á hvolfi.VÍSIR/ÞÞ
Hér má sjá aðra mynd af slysstað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×