Innlent

Aldrei sést meira af höfuðóvini birkisins

Svavar Hávarðsson skrifar
Hlýtt vor veldur því að kjöraðstæður eru fyrir birkikembu.
Hlýtt vor veldur því að kjöraðstæður eru fyrir birkikembu. Mynd/Erling Ólafsson
Aldrei hefur sést eins mikið af smáfiðrildinu birkikembu frá því að það fannst fyrst hér á landi árið 2005. Fiðrildið veldur miklum skaða á birki. Hlýju og góðu vori er um að kenna. Minna er hægt að fullyrða um viðgang geitunga, en þeir gerðu þegar vart við sig í maí.

Frá þessu greinir Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ), spurður um hvort merkja megi áhrif óvenjulega hagstæðs tíðarfars á smádýralífið hér á landi.

„Það er helst að ég búist við ljótum ummerkjum á birki í görðum okkar nú þegar líður á mánuðinn. Það hefur nefnilega aldrei sést eins mikið af þessu smáfiðrildi og þetta vorið, þegar það var að verpa á birkibrumin. Lirfur birkikembunnar eru nú á fullu gasi við að éta innan úr laufum birkitrjánna svo eftir standa sölnaðir brúnir belgir á greinum,“ segir Erling. Hann segir að þrátt fyrir miklar skemmdir þar sem fiðrildið nær sér helst á strik muni flest birkitrén ná sér þegar líður á sumarið.

Birkikembu varð fyrst vart í Hveragerði árið 2005. Í fyrravor var ljóst orðið að fiðrildinu hafði vaxið mjög ásmegin og fannst víða í Reykjavík og suður í Hafnarfjörð. Auk þess var það mætt til leiks í trjárækt Skógræktar ríkisins að Mógilsá í Kollafirði og í görðum á Selfossi. Í vor var sagt frá því í fréttum að mikið sást af fiðrildinu í Fossvogi.



Allt morar af þessari stórtæku laufátu í austurhluta borgarinnar, og reyndar víðarMynd/Erling Ólafsson
Þeir sem búa í austurhluta Reykjavíkur, og reyndar mun víðar í borginni, hafa orðið varir við bjölluna asparglyttu, en eins og birkikemban getur hún valdið miklum skaða á trjám. Það fer ekkert á milli mála hvar hún fer um, en Erling segir að sums staðar mori allt af þessari annars afar fallegu laufbjöllu. Hún er kúpt, skelin er hágljáandi og slær á hana breytilegum litum, grænum, blágrænum, fjólubláum, allt eftir því hvernig ljósið fellur á, eins og útskýrt er á pödduvef NÍ.

Flestir líta með meiri áhyggjum til þess að hlýtt vor geti orðið til þess að geitungar nái sér verulega á strik, en þeir eru óvíða aufúsugestir. „Ég hef lært að spá ekki um gengi geitunga. Þeir geta verið ólíkindatól sem taka stefnu á annan veg en maður spáir,“ segir Erling.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×