Innlent

Drukknir júbílantar og einn á tvöföldum hámarkshraða

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VISIR/Auðunn
Lögreglan á Akureyri átti í nógu að snúast í nótt, en eins og Vísir hefur greint frá standa nú yfir hinir svokölluðu Bíladagar í bænum.

Í samtali við lögreglu segir að hún að töluverður erill hafi verið hjá embættinu í nótt, „fullt af útköllum,“ þó öll hafi þau verið smávægileg.

Þrír gistu fangageymslu vegna ölvunnar, „því ekki gátu þeir séð um sig sjálfir,“ og mun lögreglan ræða við þá þegar búið er að renna af þeim. Ekki var þó einungis um gesti hátíðarinnar að ræða heldur hlaust einnig mikið ónæði af gömlum stúdentum, svokölluðum júbílöntum, sem nú eru saman komnir í bænum til að fagna útskrift úr Menntaskólanum á Akureyri á þriðjudag.

Ekkert lát virðist ætla að verða á spóli ökumanna en lögreglan hafði ekki tölu á öllum hávaðakvörtununum sem þeim bárust í kvöld og nótt. Hraðakstrinum virðist heldur ekki ætla að linna en alls voru fimm ökumenn stöðvaðir í bænum í kvöld og nótt. Þar af var einn tekinn á 107 kílómetra hraða innanbæjar, á Hlíðarfjallsvegi, og var hann sviptur ökuréttindum á staðnum.

Eitthvað var um pústra milli manna en ekkert manntjón hlaust af þeim.

Lögreglan mun fylgjast vel með þeim ökumönnum sem hugsa sér að halda heim á leið í dag og mega þeir búast við því að vera látnir blása í áfengismæla áður en þeir yfirgefa bæinn. Þá verður einnig sérstaklega fylgst með umferðarhraða þeirra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×