Innlent

Stendur ekki til að leggja niður Bíladaga

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Eiríkur Björn Björgvinsson er bæjarstjóri á Akureyri.
Eiríkur Björn Björgvinsson er bæjarstjóri á Akureyri. VISIR/GVA
„Þetta vandamál hefur verið rætt töluvert undanfarin ár og ýmislegt hefur verið gert til þess að reyna að sporna við þessu,“ segir Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, um þrálátt ónæði sem íbúar bæjarins hafa kvartað yfir vegna hinna svokölluðu Bíladaga sem nú standa yfir fyrir norðan.

Vísir flutti fréttir af því að Lögreglan á Akureyri finnur nú fyrir töluverðri fjölgun í umferðalagabrotum milli ára og að þrálátt spól ökumanna sé að gera Akureyringa gráhærða. Er nú svo komið að embættið nær varla að halda utan um öll þau tilvik sem berast inn á borð til þeirra, slíkur er fjöldi þeirra.

„Við höfum átt í góðu samstarfi við Bílaklúbb Akureyrar sem heldur utan um skipulagningu hátíðarinnar. Við réðumst til að mynda í mikla uppbyggingu á æfingasvæði klúbbsins til þess að ná spyrnum af götum bæjarins sem áður voru mikið vandamál,“ segir Eiríkur. Formleg hátíðardagskrá Bíladaga fer fram á æfingasvæðinu og er það iðullega undirlagt bílum og bílaáhugamönnum.

Eiríkur segir að hraðahindrunum hafi einnig verið fjölgað í bænum til þess að draga úr hraðaakstri en það virðist lítinn árangur hafa borið. Sektir vegna ofsaaksturs hafa aldrei verið fleiri í sögu hátíðarinnar. Eiríkur segir að þrátt fyrir að meginþorri hátíðargesta hafi hagað sér með stakri prýði sé misjafn sauður í mörgu fé og að þeir svörtu séu alltaf fyrirferðameiri. „En svo sækir hingað líka fólk sem vill ekki fylgja lögum og reglum, hvorki hér né annars staðar,“ bætir hann við. 



Ekki hafi borist í tal hjá bæjarstjórn Akureyrar að leggja hátíðina niður, þrátt fyrir allt sem á undan er gengið. „Enda snýst hátíðin ekki um það að ónáða fólk heldur um það að bílar eru líka skemmtun,“ segir hann og bætir við að menn eigi vel að geta skemmt sér í kringum slík tæki á afmörkuðum svæðum.  Eiríkur vonar að bílaáhugamenn passi hegðun sína um helgina og  vill senda þeim sem að brjóta af sér varúðarorð: „Ef þetta verður til þess að við leggjum niður hátíðina þá geta þessir menn bara sjálfum sér um kennt“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×