Fótbolti

Króatía valtaði yfir agalausa Kamerúna

Olic er hér búinn að skora fyrir Króata.
Olic er hér búinn að skora fyrir Króata. Vísir/afp
Mexíkó og Króatía munu mætast í hreinum úrslitaleik um sæti í 16-liða úrslitum HM. Það varð ljóst eftir að Króatía valtaði yfir Kamerún, 4-0, í kvöld.

Mexíkó er með stigi meira og mun því duga jafntefli í leiknum sem fram fer næstkomandi mánudag.

Fyrri hálfleikur var heldur betur líflegur. Íslandsbanarnir frá Króatíu komust yfir eftir rúmlega tíu mínútna leik þegar Ivica Olic batt endann á frábæra sókn.

Fimm mínútum fyrir leikhlé var síðan ákveðinn vendipunktur í leiknum. Þá lét Alex Song reka sig af velli.

Hann missti þá stjórn á skapi sínu og kýldi Mario Mandzukic í bakið. Var lítið annað hægt en að reka manninn af velli.

Síðari hálfleikur var síðan varla byrjaður þegar Ivan Perisic kom Króötum í 2-0 og kláraði leikinn. Hann fékk boltann við miðlínu eftir útspar. Hann tók á mikið skeið, hljóp upp allan völlinn og lagði boltann í nærhornið.

Veislan hélt áfram og markahrókurinn Mario Mandzukic skoraði tvö mörk á rúmum tíu mínútum og kláraði dæmið endanlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×