Innlent

Hafa til mánaðamóta til að semja

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Hanna Birna Kristjánsdóttir. visir/daníel
Búið er að leggja fram frumvarp á Alþingi sem kveður á um að verkfallsaðgerðirnar sem Flugvirkafélag Íslands hóf gegn Icelandair á mánudaginn síðastliðinn verði óheimilar.  Með verkfallsaðgerðum er átt við vinnustöðvanir, verkbönn, verkföll og aðrar svipaðar aðgerðir.

Í frumvarpinu er einnig kveðið á um að deiluaðilar fái til mánaðamóta til að semja annars fari málið í gerðardóm sem skal fyrir 1. ágúst ákveða kaup og kjör. Ákvörðun gerðadóms verður bindandi fyrir báða aðila og mun kjarasamningurinn gilda þann tíma sem gerðardómur ákveður. Verði frumvarpið samþykkt munu þrír dómendur sitja í gerðardómnum, einn tilnefndur af Hæstarétti Íslands, einn af Flugvirkjafélagi Íslands og einn af Samtökum atvinnulífsins.

Lögin falla úr gildi þann 1. september í ár, verði þau samþykkt og við gildistöku þeirra falla brott lög um kjaramál flugvirkja frá árinu 2010 sem kváðu einnig á um bann við vinnustöðvunum eins og þeim sem fyrirhugaðar eru.

Innanríkisráðherra er flutningsmaður frumvarpsins og er það nú til umræðu á Alþingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×