Innlent

Áslaug Hulda þakklát Garðbæingum

Áslaug er þakklát fyrir stuðninginn.
Áslaug er þakklát fyrir stuðninginn.
„Við erum fyrst og fremst rosalega ánægð en erum á sama tíma fullviss um að við munum bæta við okkur, þegar nýjar tölur birtast,“ segir Áslaug Hulda Jónsdóttir, oddviti lista Sjálfstæðismanna í Garðabæ, vongóð.

Áslaug er ánægð með fyrstu tölur og bendir á að það þurfi aðeins 61 atkvæði til þess að Gunnar Einarsson bæjarstjóri nái inn í bæjarstjórn. „Hann yrði okkar áttundi maður og við vonumst til þess að það gangi eftir.“

Flokkurinn missir rétt rúmt prósent af fylgi sínu, miðað við síðustu kosningar, en landslagið er nú breytt. „Já, það eru fleiri flokkar í framboði og nú er þetta nýtt sameinað sveitarfélag,“ bendir Áslaug á og vísar þar til þess að nú er í fyrsta sinn kosið eftir sameiningu Garðabæjar og Álftaness. Bæjarfulltrúum í sveitarfélaginu fjölgar um fjóra, sé miðað við fjölda bæjarfulltrúa í Garðabæ á kjörtímabilinu sem nú er á enda.

„Við erum bara í rífandi stemningu hérna, við erum ótrúlega þakklát fyrir þetta traust sem Garðbæingar sýna okkur,“ segir Áslaug kampakát.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×