Innlent

Fleiri heimilisofbeldismál tilkynnt til lögreglunnar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir maí 2014 hefur verið birt.

Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu.

Það sem af er ári hafa borist 325 tilkynningar um innbrot á höfuðborgarsvæðinu, sem eru nokkuð færri tilkynningar en á sama tíma síðastliðin þrjú ár.

Tilkynnt var um nokkuð fleiri heimilisofbeldismál í maí en undanfarna mánuði, og hefur tilkynningum fjölgað um fjórðung samanborið við sama tímabil síðustu þriggja ára.

31 tilkynning um heimilisofbeldi var skráð í maí sem er nokkuð meiri fjöldi en undanfarna mánuði.
Mikil fjölgun var á tilkynningum um nytjastuld vélknúinna farartækja á milli mánaða og hefur fjöldi tilkynninga ekki verið meiri í einum mánuði frá því í ársbyrjun 2012. 

Í maí tók lögreglan í notkun nýja hraðamyndavél sem hefur nýst við eftirlit með umferðalagabrotum við gatnamót, sem skýrir aukinn fjölda umferðalagabrota á höfuðborgarsvæðinu. 

Alls voru 2.687 umferðarlagabrot skráð í maí sem er töluverð fjölgun milli mánaða. Umferðarslysum fjölgaði í maí og hefur fjöldinn ekki verið meiri í einum mánuði frá því í nóvember 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×