Innlent

Samtök leigjenda vilja koma að vinnu frumvarps

Bjarki Ármannsson skrifar
Stjórnarformaður Samtaka leigjenda á Íslandi er ósáttur með ummæli Elsu Láru á Bylgjunni í morgun.
Stjórnarformaður Samtaka leigjenda á Íslandi er ósáttur með ummæli Elsu Láru á Bylgjunni í morgun. Vísir/Aðsend/Pjetur
Jóhann Már Sigurbjörnsson, stjórnarformaður Samtaka leigjenda á Íslandi, segir samtökin ósátt með að vinna sé hafin að nýju frumvarpi um leigumarkað án þess að fulltrúar samtakanna séu hafðir með í ráðum. Elsa Lára Arnardóttir, þingkona Framsóknarflokksins, sagði í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að unnið væri nú að lagabreytingum í velferðarráðuneytinu og að frumvörp um nýjar tillögur á leigumarkaði yrðu tilbúin í október.

„Ef þetta reynist rétt, þá erum við frekar fúl yfir því að fá ekki að taka þátt í þessu,“ segir Jóhann Már. „Við höfum gert nokkrar tilraunir til að benda á að við séum mjög áhugasöm um að taka þátt í þessari vinnu.“

Hann segir samtökin en ekki hafa fengið svör við því hvort vilji sé fyrir hendi að leyfa aðkomu samtakanna að málinu.

„En við teljum að svarið sé komið miðað við ummæli Elsu í morgun.“

Hann segir mikla reynslu og þekkingu á leigumarkaði innan samtakanna og að honum þætti skynsamlegt af stjórnvöldum að nýta það.

„Ef okkar sýn á skilvirkan og heilbrigðan leigumarkað fær ekki að framganga, þá höfum við frekar litla trú á því að það sé raunverulega vilji til þess að byggja upp þennan leigumarkað,“ segir Jóhann Már. „Ef þau telja að lögfræðingar og Excel-viðskiptafræðingar geti byggt grunninn að góðum leigumarkaði, þá eru þau á viligötum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×