Innlent

Nauðsynlegt að rannsókn málsins nái einnig til sambærilegra stúlknaheimila

Mikil reiði ríkir á Írlandi eftir að jarðneskar leifar um 800 barna fundust í ómerktri gröf hjá heimili fyrir ungar konur. Erkibiskupinn í Dublin segir nauðsynlegt að rannsókn málsins nái einnig til sambærilegra stúlknaheimila þar í landi.

Börnin sem hvíla í hinni ómerktu gröf við stúlknaheimilið eru talin hafa verið nýfædd og allt upp í 9 ára gömul. Þau eiga það eitt sameiginlegt að vera fædd af ungum konum sem voru vistmenn á Tuam-heimilinu, sem rekið var af kaþólskum nunnum, fyrir stúlkur sem voru ógiftar og barnshafandi.

Tuam er ein af tíu viðlíka stofnunum á Írlandi þar sem um 35.000 ógiftar barnshafandi stúlkur voru sendar á fyrri hluta 20. aldar.

Erkibiskupinn í Dublin sagði við fréttavef breska ríkisútvarpsins í dag að ekki væri nóg að rannsaka það sem fram hefði farið á Tuam heimilinu, rannsaka þyrfti hvernig aðbúnaði mæðra og barna hefði verið háttað og hvort börnin hafi jafnvel verið notuð til rannsókna í læknisfræðilegum tilgangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×