Innlent

Málefnasamningar kynntir á morgun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mosfellsbær, Lágafellslaug fyrir miðju.
Mosfellsbær, Lágafellslaug fyrir miðju. VISIR/GVA
Búast má við því að málefnasamningar í mörgum af stærstu sveitarfélögum landsins líti dagsins ljós á næstu dögum.

Framsóknarflokkurinn, L-listinn og Samfylking munu mynda nýjan meirihluta á Akureyri. Matthías Rögnvaldsson, oddviti L-listans segir að skrifað verði undir meirihlutasamning á morgun og hann kynntur seinni partinn. Matthías segir samningaviðræður hafa gengið að mestu snurðulaust fyrir sig enda hafi allir aðilar verið nokkuð samstíga þegar kom að áherslumálum á næsta kjörtímabili.

Drög að nýjum málefnasamningi Sjálfstæðisflokks og Vinstri Grænna í Mosfellsbæ verða kynnt á fulltrúaráðsfundi Sjálfstæðismanna klukkan 18 á morgun. Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi hlotið hreinan meirihluta í liðnum bæjarstjórnarkosningum, fimm af níu fulltrúum, var ákveðið að endurnýja samstarfið við Vinstri græna en flokkarnir hafa verið í meirihlutasamstarfi undanfarin átta ár.

Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði, vonar einnig að málefnasamningur flokks hennar og Bjartrar framtíðar verði kynntur á morgun.

Björt framtíð er einnig að leggja grunninn að samstarfi í Reykjavík með þremur öðrum flokkum; Samfylkingu, Pírötum og Vinstri grænum. Vonast Dagur B. Eggertsson oddviti Samfylkingarinnar að málefnasamningur í borginni verði tilbúinn á fimmtudag – áður en heimsmeistaramótið í knattspyrnu hefst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×