Innlent

Flugmenn og grunnskólakennarar bíða úrslita

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Húsakynni ríkissáttasemjara í Borgartúni 21.
Húsakynni ríkissáttasemjara í Borgartúni 21.
Úrslita er að vænta úr atkvæðagreiðslum um kjarasamninga flugmanna Icelandair síðar í dag.

Kjarasamningurinn kveður á um 6,8 prósenta hækkun. Flugmenn fá almenna launahækkun upp á 2,8 prósent en fá þeir jafnframt hækkanir á bónusgreiðslum vegna eldsneytissparnaðar og stundvísi.

Samningurinn var undirritaður á fimmtudaginn í síðustu viku, 22. maí síðastliðinn, og gildir samningurinn til 30. september.  



Ólafur Loftsson, formaður Félags Grunnskólakennara, segir niðurstaðna einnig að vænta úr atkvæðagreiðslu félagsmanna um kjarasamninginn sem undirritaður var í síðustu viku.

Talið er að samningurinn hljóði upp á 7,3 prósenta launahækkun 1. júni ásamt frekari launahækkunum þegar líður á samningstímann. Samningurinn mun gilda út árið 2016.

Kennurum verður einnig boðið að afsala sér aldursafslætti gegn um 9 prósenta launahækkun. Aldursafsláttur kennara felst í að 55 ára kennarar fá að fækka kennslustundum um ríflega eina klukkustund á viku. Sextugir kennarar geta svo fækkað kennslustundum um tæplega fimm stundir á viku.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×