Innlent

Pírötum berst aðstoð að utan

Bjarki Ármannsson skrifar
Þórlaug ásamt þeim Torge Schmidt, Fabio Reinhardt og Jan Leutert, aðstoðarmanni Torge.
Þórlaug ásamt þeim Torge Schmidt, Fabio Reinhardt og Jan Leutert, aðstoðarmanni Torge. Mynd/Aðsend
Þrír fulltrúar Píratahreyfingunnar frá Þýskalandi eru staddir hér á landi um þessar mundir að aðstoða íslenska starfsbræður sína í komandi borgarstjórnarkosningum. Tveir þeirra, þeir Fabio Reinhardt og Torge Schmidt, eiga sæti í borgarráði í heimalandinu, Fabio í Berlín og Torge í Slésvík-Holstein. Þórlaug Ágústsdóttir, sem skipar þriðja sætið á framboðslista flokksins í Reykjavík, segir að þýsku píratarnir hafi margt að kenna þeim íslensku.

„Já og við þeim,“ segir Þórlaug. „Við erum náttúrulega svo framarlega í rafrænu lýðræði og slíku.“

Að sögn Þórlaugar hafa þýsku píratarnir mikinn áhuga á hreyfingunni hérlendis og ákváðu sjálfir að koma hingað og leggja lið sitt við þá íslensku. Þeir gista heima hjá flokksmönnum á meðan kosningum stendur og hjálpa til í kosningabaráttunni eins og þeir geta. 

„Þeir hafa meðal annars verið að bera út bæklinga og bréf á Bergþórugötu,“ segir Þórlaug. „Milli þess höfum við verið að ræða hugmyndafræði flokksins og hugmyndir um íbúalýðræði. Svo eru þeir í ESB, þannig að við höfum líka verið að ræða svoleiðis mál.“

Þýsku hjálparhellurnar munu snúa aftur til heimalandsins beint í kjölfar kosninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×