Innlent

Hótaði að brenna hælisleitendur inni

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald  til 24. júní næstkomandi.
Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 24. júní næstkomandi. Vísir/Stefán
Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness yfir hælisleitanda sem hótaði í tölvupósti til Útlendingastofnunar að brenna inni inni hælisleitendur og tvo nafngreinda starfsmenn félagsmálastofnunar.

Þá hótaði hann starfsmönnunum á stofnuninni og þurfti að kalla til lögreglu. Maðurinn sagðist ætla að læsa alla dvalargesti stofnunarinnar inni og kveikja í húsinu fengi hann ekki úrlausn sinna mála samdægurs.

Maðurinn á samkvæmt lögreglu sögu um ofbeldi hér á landi og hefur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega hættulega líkamsárás mannsins til rannsóknar frá því í Kringlunni 1. nóvember 2013 þar sem hann kýldi annan mann í andlitið og stakk hann tvisvar sinnum með hníf. Ákæra hefur verið gefin út í málinu.

Útlendingastofnun hefur þegar tekið ákvörðun um að vísa manninum brott af landinu en sú ákvörðun hefur ekki verið birt honum enn og verður það ekki gert fyrr en niðurstaða í líkamsárásarmálinu liggur fyrir.

Maðurinn hefur gefið upp rangt nafn hjá yfirvöldum og einnig dró hann umsókn sína um hæli til baka. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald þar til dómur í líkamsárásarmálinu liggur fyrir en þó ekki lengur en til 24. júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×