Innlent

Atkvæðið endaði á Grænlandi

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
„Ég fæ atkvæðið örugglega innrammað til baka í ísbjarnarskinni frá Grænlandi,“ segir Gunnlaugur Hólm Sigurðsson, kjósandi, sem fékk símtal í morgun þess efnis að atkvæði hans í sveitarstjórnarkosningunum sem hann skilaði til Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og senda átti til Akureyrar hefði endað í Grænlandi.

„Ég kaus utankjörstaðar í Laugardalnum í gærkvöldi og tók atkvæðið með mér í sérstöku umslagi þar sem það var orðið of seint að setja það í póst til að það myndi skila sér,“ segir Gunnlaugur.

Hann fór síðan upp í Valhöll, húsnæði Sjálfstæðisflokksins, sem sá um það fyrir hann að setja atkvæðið í flug með Flugfélagi Íslands til Akureyrar, sem endaði með fyrrgreindum hætti.

Hafsteinn Valsson starfsmaður Sjálfstæðisflokksins staðfestir sögu Gunnlaugs.

„Já, þetta er rétt, atkvæðið fór til Nuuk í Grænlandi og það var ekki bara þetta eina atkvæði, heldur líka kassi af mintum,“ segir Hafsteinn.

Hann segir Gunnlaug verða að kjósa aftur og hægt sé að koma næsta atkvæði á réttan stað.

„Ég minnist þess ekki að þetta hafi gerst áður, atkvæði hafa farið til annars landshluta en ekki til annars lands,“ segir Hafsteinn.

Gunnlaugur er ekki par sáttur við Flugfélag Íslands vegna málsins. „Ég hef ekki hugmynd hvað verður um atkvæðið mitt, þeir hljóta að þurfa að skila því eitthvað, þetta er trúnaðarpóstur. Þessi póstur er mitt persónulega atkvæði, þeir algjörlega klúðruðu þessu.“

„Ég fæ það örugglega innrammað til baka í ísbjarnarskinni frá Grænlandi,“ segir Gunnlaugur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×