Innlent

Kjaradeilu leikskólakennara vísað til ríkissáttasemjara

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VISIR/VALGARÐUR
Í dag vísaði Samband íslenskra sveitarfélaga kjaradeilu Félags leikskólakennara inn á borð til ríkissáttasemjara.

Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, sagði í opnu bréfi á miðvikudag að leikskólakennara myndu ekki sætta sig við neitt annað en „sömu hækkanir og grunnskólakennarar fengu sem og tímasetta áætlun til að leiðrétta og jafna starfskjör eins og undirbúningstíma og fleira.“

Í bréfinu óskaði Haraldur þeim Ingu Rúnar Ólafsdóttur, formanni samninganefndar sveitarfélaga, og Atla Atlasonar, fulltrúa Reykjavíkurborgar í samninganefnd sveitarfélaga til hamingju með nýgerðan kjarasamning við grunnskólakennara, en sagði leikskólakennara hafa beðið þolinmóða á hliðarlínunni og gefið þeim rými til að klára samninginn.

„Þið munuð fá einn fund til að sannfæra mig um að gengið verði í það verkefni hratt og örugglega. Ef ykkur tekst ekki að sannfæra mig á næsta fundi munum við vísa beint til ríkissáttasemjara og skipuleggja aðgerðir strax,“ sagði Haraldur í bréfinu og ljóst er að hann er enn ósannfærður ef tekið er mið af fréttum dagsins.

Samkvæmt heimildum Vísis verður boðað til fyrsta fundar milli deiluaðila innan tíðar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×