Innlent

Vilja aukna meðvitund um að friður, vinátta og skilningur hefst í hjarta hvers og eins

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Opnunarhátíð var haldin við friðartréð við Tjörnina í Reykjavík. Friðarhlauparar komu hlaupandi inn í athöfnina ásamt nemendum í Vesturbæjarskóla.
Opnunarhátíð var haldin við friðartréð við Tjörnina í Reykjavík. Friðarhlauparar komu hlaupandi inn í athöfnina ásamt nemendum í Vesturbæjarskóla.
Eitthundrað börn og unglingar hlupu fyrsta spölinn í Sri Chinmoy heimseiningar Friðarhlaupinu sem hófst í morgun. Opnunarhátíð var haldin við friðartréð við Tjörnina í Reykjavík. Friðarhlauparar komu hlaupandi inn í athöfnina ásamt nemendum í Vesturbæjarskóla.

Friðarhlaupið er alþjóðlegt kyndiboðhlaup. Tilgangur hlaupsins er að efla frið, vináttu og skilning manna og menningarheima á milli. Sem tákn um þessa viðleitni bera hlauparar logandi kyndil, sem berst manna á milli í þúsundum byggðarlaga í yfir hundrað löndum. Meðal annarra sem stutt hafa hlaupið má nefna Nelson Mandela, Mikhail Gorbachev, Móður Teresu og Desmond Tutu.

Hlaupið endar á Langjökli 

Átta friðarhlauparar munu hlaupa þar til 1. júní en hlaupið endar á Langjökli. Hlaupararnir skiptast á að hlaupa frá því klukkan átta á morgunanna til um klukkan 19. Blaðamaður hitti fjóra hlaupara fyrir þegar þeir hlupu fram hjá 365 miðlum. Hlaupararnir voru hressir og stoppuðu aðeins til þess að láta smella af sér mynd.

Hafliði sem er átta ára gamall leiddi hlaupið í morgun.
Það var hinn átta ára gamli Hafliði Hafþórsson sem leiddi hlaupið í morgun að sögn Torfa Leóssonar, skipuleggjanda hlaupsins hér á landi. Um 100 krakkar voru mættir á opnunarhátíðina. Auk nemenda úr Vesturbæjarskóla voru nemendur í Tjarnaskóla einnig mættir.

Ísland með frá upphafi

Friðarhlaupið hófst árið 1987 og Ísland hefur tekið þátt frá upphafi. Árið 1987 settu Steingrímur Hermannsson þá forsætisráðherra og Davíð Oddsson þá borgarstjóri settu hlaupið. Mörgum er það eflaust í fersku minni þegar stofnandi hlaupsins, Sri Chinmoy, lyfti Steingrími upp þar sem hann hélt á friðarkyndlinum við opnunarhátíðina árið 1989.

Friðarhlaupið safnar ekki fé og leitar ekki eftir stuðningi við pólitískan málstað. Markmið hlaupsins er að auka meðvitund um að friður, vinátta og skilningur hefst í hjarta hvers og eins segir í tilkynningu vegna hlaupsins.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×