Innlent

Reykjavíkurborg hefur ekki staðið við samninga um Hljómskálann

Randver Kári Randversson skrifar
Hljómskálinn við Tjörnina.
Hljómskálinn við Tjörnina. Visir/GVA
Reykjavíkurborg hefur ekki enn efnt ákvæði samnings sem gerður var við Lúðrasveit Reykjavíkur vegna reksturs kaffihúss í Hljómskálanum við Tjörnina sumrin 2009 og 2010.

„Þeir stóðu bara ekki við sinn hluta samkomulagsins. Reykjavíkurborg hefur ekki skilað húsinu með þeirra geymslu var í húsinu“, segir Bára Sigurjónsdóttir, gjaldkeri Lúðrasveitar Reykjavíkur.

Vorið 2009 var gerður leigusamningur milli Reykjavíkurborgar og eiganda hljómskálans, Lúðrasveitar Reykjavíkur. Reykjavíkurborg hefur enn ekki skilað húsinu í viðunandi ástandi, auk þess sem ekki hefur verið lokið við að greiða umsamda leigu. 

Eftir að kaffihúsarekstri lauk sumarið 2010 fékk Lúðrasveit Reykjavíkur húsið aftur afhent til æfinga. Allt geymslurými Lúðrasveitarinnar var fjarlægt úr húsinu þegar gerðar voru breytingar á því vegna kaffihúsarekstursins en Reykjavíkurborg hafði skuldbundið sig til að skila húsnæðinu aftur í fyrra ástandi.

Á árunum 2010-2012 stóðu yfir viðræður milli aðila um áframhaldandi rekstur kaffihúss í Hljómskálanum yfir sumartímann og var því frestað að færa húsnæðið í það ástand sem hentar starfsemi Lúðrasveitarinnar. Viðræðurnar hafa legið niðri frá því í mars 2012 þegar síðasti fundur fór fram. „Það er ekkert að gerast, þeir hafa ekkert samband og það er eins og þeir ætli sér ekkert að gera neitt meira í þessu máli“, segir Bára. 

Vegna þess að engin geymsla var í húsinu fékk Lúðrasveit Reykjavíkur úthlutað geymslurými í Vonarstræti. Haustið 2011 voru allar eigur sem þar voru geymdar fjarlægðar, án samráðs við Lúðrasveit Reykjavíkur, vegna sölu hússins og fluttar í aðra geymslu sem lúðrasveitin hefur ekki aðgang að. 

„Þeir hafa sagt það að þetta sé þarna í einhverri geymslu á Vesturgötu, en við höfum aldrei fengið að sjá þetta, og höfum í raun ekki hugmynd um hvort þetta dót er þarna eða ekki“, segir Bára.

Á meðal þess sem fjarlægt var úr geymslunni er nánast allt nótnasafn Lúðrasveitar Reykjavíkur, sem hefur að geyma um 700 tónverk. „Þetta hefur háð verkefnavali sveitarinnar á tónleikum, því að við höfum ekki aðgang að neinu sem heitir nótur. Við höfum bara reddað þessu, fengið lánað og eitthvað eigum við til, en þetta þýðir að við erum svolítið mikið að spila sömu lögin“, segir Bára að síðustu við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×