Innlent

10.600 vefsíðum lokað í tengslum við sölu á ólöglegum lyfjum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Embætti Tollstjóra og Lyfjastofnun tóku sameiginlega þátt í aðgerðinni.
Embætti Tollstjóra og Lyfjastofnun tóku sameiginlega þátt í aðgerðinni. mynd/tollstjórinn
Þrjú mál komu upp nýlega hér á landi í alþjóðlegri aðgerð gegn fölsuðum og ólöglegum lyfjum sem seld eru á netinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti Tollstjóra.

Embætti Tollstjóra og Lyfjastofnun tóku sameiginlega þátt í aðgerðinni og stóð hún yfir í eina viku.

„Það er ekkert hægt að segja um þau mál sem komu upp hér á landi að svo stöddu,“ segir Snorri Olsen, Tollstjóri, í samtali við Vísi en hann staðfesti að rannsókn stæði yfir.

Aðgerðin „Pangea VII" var á vegum WCO (World Customs Organisation) og kom Interpol að henni. Markmið aðgerðarinnar var að uppræta glæpastarfsemi á sölu á umræddum lyfjum.

Um er að ræða stærstu alþjóðlegu aðgerð gegn sölu ólöglegra lyfja, sem framkvæmd hefur verið til þessa. Nær 200 stofnanir í 111 löndum tóku þátt í henni og voru 237 handteknir í fjölmörgum löndum.

Meðal þeirra 9.4 milljóna sendinga af fölsuðum og ólöglegum lyfjum, sem haldlögð voru í aðgerðinni voru megrunarlyf, krabbameinslyf, malaríulyf, og stinningarlyf.

Þau voru að andvirði um 36 milljónir dollara. Upp komu 1.235 mál, sem eru til rannsóknar hjá viðkomandi lögregluyfirvöldum, meira en 19.000 auglýsingar á ólöglegum lyfjum voru fjarlægðar og rúmlega 10.600 vefsíðum var lokað.

Talið er að stór hluti þeirra lyfja sem seld eru í gegnum netið séu fölsuð en þau geta verið stórhættuleg. Til að blekkja kaupandann hvað varðar útlit og áhrif er í sumum tilfellum notuð efni eins og götumálning, lakk, amfetamín og morfín.

Fyrir utan stinningarlyf er algengt að grenningarlyf, fúkkalyf og lyf gegn kólesteróli séu fölsuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×