Innlent

68.000 glötuð góð æviár

Svavar Hávarðsson skrifar
Fréttablaðið/AP
Mælikvarðar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) sýna að fórnarkostnaður vegna lífsstílssjúkdóma á Íslandi er ógnarhár en á sama tíma verja fáar vestrænar þjóðir eins litlu fé til beinna forvarna. Kallað er eftir heildstæðri forvarnastefnu í anda þeirra sem Norðurlandaþjóðirnar hafa unnið.

Á þetta bendir Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS, meðal annars í blaði samtakanna sem kemur út eftir helgi. Hann segir að hið opinbera verði að fjárfesta í forvörnum á sviði lífsstíls, því að óbreyttu gæti næsta kynslóð lifað skemur en foreldrar hennar.

Í dag eru um 500 milljónir veittar til beinna forvarna; og þá helst krabbameinsleitar og áfengis- og vímuvarna. Kostnaður við heilbrigðisstofnanir og heilsugæslu losar 100 milljarða, en Guðmundur tekur fram að innan heilsugæslunnar fari fram mikið forvarnastarf. Þegar allt er skoðað fer 1,6 prósent af útgjöldum heilbrigðiskerfisins í forvarnir. Á sama tíma stafa 80 prósent kostnaðar af langvinnum sjúkdómum, sem að meira eða minna leyti má rekja til lífsstíls, segir Guðmundur.

Spurður um þjóðhagslegan sparnað af forvörnum í þessu ljósi bendir Guðmundur á skýrslu WHO, Global burden of disease, frá 2012 þar sem heilsufarsskaði þjóða er mældur með því að leggja saman glötuð æviár vegna ótímabærs dauða og æviár sem einstaklingur lifir við örorku, en beitt er kvarða sem nefndur er „glötuð góð æviár“. Samkvæmt WHO voru árin 68.000 talsins þegar skýrslan kom út árið 2012. Landsframleiðsla á mann á Íslandi samkvæmt Hagstofu Íslands var 5,2 milljónir króna á sama tíma, og miðað við það er heilsufarsskaðinn ríflega 350 milljarðar.

„Þó þetta sé vitanlega ekki fullkominn kvarði og mikil einföldun þá er ljóst að þó aðeins takist að tálga eitt prósent af, með markvissum forvörnum á sviði lífsstíls, þá erum við strax farin að tala í milljörðum í lægri sjúkrakostnaði og auknu vinnuframlagi,“ segir Guðmundur.

Á Norðurlöndunum er verið að innleiða heildstæða stefnu á sviði ósmitnæmra sjúkdóma – lífsstílssjúkdóma. Hún tekur sameiginlega á stórum áhættuþáttum þeirra og sett eru undir einn hatt hjarta- og æðasjúkdómar, sykursýki, ákveðnir öndunarfærasjúkdómar og krabbamein.

„Á sama tíma erum við að setja saman forvarnastefnu fyrir krabbamein einvörðungu, í stað þess að vinna þetta heildstætt. Við ættum að læra af þessum nágrönnum okkar,“ segir Guðmundur en stærstu ógnir við heilsufar Íslendinga eru stoðkerfisraskanir, geðraskanir, krabbamein og hjarta- og æðasjúkdómar – í þessari röð. Áhættuþættir sem vega þyngst eru mataræði, ofþyngd, reykingar og háþrýstingur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×