Innlent

Telur Hönnu Birnu hafa verið beggja megin borðsins

Sveinn Arnarsson skrifar
Sveinbjörg Birna telur Hönnu Birnu hafa verið beggja megin borðsins
Sveinbjörg Birna telur Hönnu Birnu hafa verið beggja megin borðsins
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins, telur að Hanna Birna Kristjánsdóttir, ráðherra samgöngumála, hafi verið beggja megin borðsins þegar hún undirritaði samning um flugvöllinn í Vatnsmýri fyrir hönd ríkisins við Reykjavíkurborg þann 25. október í fyrra. Þar kemur fram að loka eigi neyðarbrautinni svokallaðri, NA/SV brautinni.

„Mér finnst þetta samkomulag afar hæpið og tel að þarna sé hún næstum beggja megin borðsins. Með þessu samkomulagi er hún að leggja blessun sína yfir gjörðir sem hún fylgdi eftir meðan hún sat í stóli borgarstjóra svo þetta hlýtur að skjóta skökku við,“ segir Sveinbjörg Birna í samtali við Vísi.

Þann 25 október gerðu ríkið, Reykjavíkurborg og Icelandair Group með sér samkomulag um innanlandsflug. Samkomulagið var undirritað af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Jóni Gnarr, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Degi B. Eggertssyni. Samkomulagið fólst í því að festa í sessi norður-suður flugbraut til ársins 2022 og að Rögnunefndin svokallaða hafi svigrúm til að vinna að framtíðaráformum um skipan innanlandsflugs.

Í viðaukasamningi sem gerður var við þetta tækifæri var tekið fram að NA-SV brautin, neyðarflugbrautin svokallaða myndi loka samhliða deiliskuplagsauglýsingu þess efnis í lok árs 2014. Viðaukasamningurinn er undirritaður af Jóni Gnarr fyrir hönd Reykjavíkurborgar og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrir hönd ríksins

Þetta samkomulag er Sveinbjörg Birna afar ósátt við og telur að Hanna birna hafi þarna verið að leggja samþykki yfir hennar fyrrum gjörðir sem borgarstjóri.

Allar fréttir af sveitarstjórnarkosningunum 2014 má nálgast á Kosningavef Vísis, visir.is/kosningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×