Innlent

Ferðast um heiminn án flugvéla

Birta Björnsdóttir skrifar
Ferðalangurinn Torbjørn Pedersen hefur verið á ferðalagi undanfarna mánuði, og það engu smá ferðalagi. Hann ætlar að heimsækja öll lönd í heiminum og hefur einsett sér að snúa ekki aftur heim til Danmerkur fyrr en hann hefur náð því markmiði sínu.

Hann er nú staddur á Íslandi, sem er 37. landið, af þeim 203 sem eru á listanum. Hér vonast hann til að fá far með skipi Eimskipafélags Íslands, sem heldur til Halifax þann 7. maí næstkomandi.

Ástæðan fyrir því að Torbjørn treystir á Eimskip í þessum efnum er sú regla sem hann setti sér í upphafi ferðar að mega ekki notast við flugvélar á ferðalagi sínu.

Og Torbjørn hefur sett sér fleiri reglur, hann verður að dvelja hið minnsta einn sólarhring í hverju landi fyrir sig, borða þar mat og hitta fólk. Þá má hann ekki snúa aftur til Danmerkur fyrr en markmiðinu er náð en hann áætlar um fjögur ár í ferðina.

En hvað verður það fyrsta sem Torbjørn gerir þegar hann snýr aftur heim?

„Þá ætla ég að knúsa kærustuna mína,“ segir hann, en hún situr heima og bíður á meðan kærastinn gerir víðreist.

„Ég ferðast til að smakka nýjan mat, dansa nýjan dans, hitta skemmtilegt fólk og upplifa allt þetta dásamlega sem heimsreisa hefur uppá að bjóða,“ segir ferðalangurinn Torbjørn Pedersen.

Hægt er að fylgjast með ferðalagi Torbjørns á heimasíðu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×