Innlent

Samningaviðræður þokast í rétta átt

Verkfallið færi fram á tímabilinu 25. apríl til 10. maí á lögbundnum próftíma.
Verkfallið færi fram á tímabilinu 25. apríl til 10. maí á lögbundnum próftíma. visir/daníel
Góður gangur er í samningaviðræðum Félags háskólakennara og ríkisins. Formaður félagsins segist vera bjartsýnn á að samningar náist á næstu dögum.

Háskólakennarar og annað háskólamenntað stjórnsýslufólk samþykkti verkfall í mars og boðaði formlega til verkfallsins níunda apríl síðastliðinn. Samninganefnd félags háskólakennara hefur síðustu daga fundað stíft með samninganefnd ríkisins hjá Ríkissáttasemjara, og segir formaður félagsins að góður gangur sé í viðræðunum.

„Það hafa verið alveg stanslausir fundir og þetta er svona að þokast í rétta átt,“ segir Jörundur Guðmundsson, formaður félags háskólakennara.

Jörundur segir að félag háskólakennara muni funda með stjórnendum háskólans í dag og á morgun til ræða stöðuna. Fundarhöld halda svo áfram hjá ríkissáttasemjara næstu daga.

„Það verður fundir núna á eftir með okkar eigið fólki og þar verður farið yfir stöðuna og svo verður tekin ákvörðun um framhaldið. Það eru allir í viðbragðstöðu.“

Tólf dagar eru nú í boðað verkfall háskólakennara og annars háskólamenntað stjórnsýslufólks, en verkfallið er boðað á lögbundnum prófatíma, dagana 25. apríl til 10. maí næstkomandi. Um níu hundruð og tuttugu manns munu leggja niður störf náist samningar ekki fyrir þann tíma.

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur lýst yfir þungum áhyggjum vegna málsins og hafa stúdentar boðað til mótmæla fyrir utan fjármálaráðuneytið á mánudag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×