Innlent

Flæddi inn í íbúð - Slökkvilið í viðbragðsstöðu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Allt er á floti í Ólafsvík. Þessi mynd er tekin við beitingaskúrana í bænum.
Allt er á floti í Ólafsvík. Þessi mynd er tekin við beitingaskúrana í bænum. Vísir/ÞA
Slökkvilið Ólafsvíkur var kallað út í morgun þegar vatn flæddi inn í kjallaraíbúð í Brautarholti í Ólafsvík. 

„Þetta voru töluverðar skemmdir á íbúðinni,“ segir Svanur Tómasson, slökkviliðsstjóri Snæfellsbæjar. 

Veðrið í Ólafsvík er ákaflega slæmt þessa stundina. Miklir vindar geysa úr suður og suð-austanátt. 

„Við köllum þetta „Stóra-Sunnan“ hér í Ólafsvík. Þá er mikil sunnanátt í bland við mikla úrkomu. Við höfum ekki séð svona veður í fleiri, fleiri, fleiri mánuði,“ útskýrir Svanur.

Hann segir veðrið hafa skánað örlítið frá því í morgun. „Í morgun var krapalag yfir öllu og þá stífluðust niðruföll frekar - þau höfðu vart undan. Nú hefur vindinn lægt örlítið en úrkoman er rosaleg.“

Slökkvilið Snæfellsbæjar er í viðbragðsstöðu vegna veðursins. „Það er friður eins og er, en kannski ætti maður ekki að segja svona um veðrið. Það gæti versnað aftur," segir Svanur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×