Innlent

Týr málaður rauður

Stefán Árni Pálsson skrifar
Landhelgisgæslan og Fáfnir Offshore hf undirrituðu nýverið fimm mánaða samning um leigu á varðskipinu.
Landhelgisgæslan og Fáfnir Offshore hf undirrituðu nýverið fimm mánaða samning um leigu á varðskipinu. Guðmundur St Valdimarsson
Varðskipið Týr er nú í slipp á Akureyri og hefur verið málað rautt vegna leiguverkefnis sem mun hefjast frá byrjun maí næstkomandi en þetta kemur fram í frétt á vef Landhelgisgæslunnar.

Landhelgisgæslan og Fáfnir Offshore hf undirrituðu nýverið fimm mánaða samning um leigu á varðskipinu þar sem skipið verður leigt til eftirlits- og björgunarstarfa sem og almennra löggæslu- og þjónustustarfa fyrir Sýslumanninn á Svalbarða með heimahöfn í Longerbyen. 

Landhelgisgæslan hefur beint og óbeint sinnt verkefnum fyrir Sýslumanninn á Svalbarða gegnum árin en mikið samstarf hefur verið milli þyrlusveitar Sýslumannsins og þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar.

mynd/ Guðmundur St Valdimarsson
Um tímabundna leigu er að ræða þar til nýtt skip Fáfnis verður fullbúið, en það skip er fyrsta sérhæfða skip Íslendinga til að þjónusta olíuborpalla og er sérstaklega hannað til að sinna verkefnum á norðlægum slóðum. 

Fyrirtækið Fáfnir Offshore hefur haslað sér völl á sviði þjónustu við olíurannsóknir og olíuvinnslu á Norðurslóðum og hyggst enn frekar færa út kvíarnar á þeim vettvangi. 

Fyrirtækið hefur gert samning við Sýslumanninn á Svalbarða um gæsluverkefni í kringum eyjarnar næstu tíu árin og mun nýta hið nýja skip til þeirra verka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×