Innlent

Kötturinn Valdimar heldur heimilisfólkinu ungu

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Kötturinn Valdimar kom á Hrafnistu frá Kattholti fyrir tveimur árum og unir sér vel meðal heimilismanna á deild sjö þar sem hann er afar heimakær.

Valdimar er sagður halda heimilisfólkinu ungu, en þau sjá til þess að hann hafi alltaf nóg að éta og fylgjast með að hann skili sér heim á kvöldin.

„Hann Valdimar er alveg æðislegur kisi og gamla fólkið alveg snýst í kringum hann. Svo er hann svo kelinn og góður,“ segir Dagný Ingólfsdóttir, starfsmaður á deildinni.

Valdimar varð þó fyrir því óhappi að fótbrotna á dögunum og var settur í spelku í kjölfarið. Þar sem hann er fullgildur meðlimur samfélagsins á Hrafnistu gekk ekki annað en að setja hann í endurhæfingu í íþróttasal hússins og náði hann skjótum bata.

Aðspurð hvort ofnæmi setji strik í reikninginn segir hún svo ekki vera.

„Nei það hefur ekki verið neitt svoleiðis. Reyndar var einn starfsmaður með ofnæmi en hann var bara færður um deild,“ segir Dagný.

Valdimar er ekki eina dýrið á elliheimilinu, en þar er líka gulur páfagaukur sem lífgar upp á heimilislífið. Svo er það kötturinn Jónsi sem kíkir reglulega í heimsókn til húsbóndans, sem er heimilismaður á Hrafnistu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.