Innlent

EES samningnum verði rift meðan höft eru í landinu

Elimar Hauksson skrifar
Eiríkur telur að ef umsóknin verði dregin til baka þá verði Íslendingar fljótlega krafðir svara um afnám hafta.
Eiríkur telur að ef umsóknin verði dregin til baka þá verði Íslendingar fljótlega krafðir svara um afnám hafta. Mynd/Stefán
Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að ef aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði dregin til baka þá verði Íslendingar mjög fljótt krafðir svara um hvernig ríkið ætli að uppfylla samningsskyldur sínar gagnvart EES samningnum og afnema gjaldeyrishöft.

Eiríkur telur að fari svo að aðildarumsókn verði dregin til baka, þá geti Íslendingar ekki tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið í viðræðum við Evrópusambandið og afar langsótt sé að Ísland geti sótt um aðild aftur á næstu árum.

„Öll 28 aðildarríkin þurfa þá að samþykkja umsóknina fyrir sitt leyti og það verður ekki þrautalaust. Það eru ekkert sérstaklega miklar líkur á því að Ísland verði á næstu árum eða áratugum jafnvel samþykkt sem umsóknarríki,“ segir Eiríkur.

Hann telur auk þess að Ísland verði mjög fljótt krafið svara um hvernig það ætli að uppfylla samningsskyldur sínar gagnvart EES samningnum þar sem Íslendingar hafi ekki uppfyllt skilyrði samningsins um frjálst flæði fjármagns vegna gjaldeyrishafta hér á landi.

„Ef við uppfyllum ekki EES samninginn þá ber Evrópusambandinu í raun að segja honum upp. Samningurinn er líflína Íslands inn á innri markaðinn og það er forsenda fyrir velsæld í íslensku efnahagslífi að hafa aðgang að þessum markaði. Glatist hann þá myndi það hafa í för með sér gríðarlegar efnahagslegar hörmungar, jafnvel meiri en þær sem urðu við hrunið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×